Enn einn metmánuður hjá Norðmönnum

Deila:

Enn setja norðmenn met í útflutningi sjávarafurða. Verðmæti útflutningsins í janúar nam 10,3 milljörðum norskra króna. Það svarar til 145 milljarða íslenskra króna. Það er aukning um 30 milljarða íslenskra króna. Verðmæti útfluttra sjávarafurða í janúar hefur aldrei verið meira og endurspeglar það góðan gang á síðasta ári. Þrátt fyrir Covid faraldurinn hefur verð á mörgum afurðum hækkað og eftirspurn aukist. Það er ekki aðeins met í verðmætum heldur einnig í magni. Sala á laxi var í hæstu hæðum í janúar og hefur aldrei verið meiri bæði í magni og verðmæti.

Laxinn dregur vagninn

Það var laxinn sem dró vagninn í janúar og skilar hann 70% af verðmæti allra útfluttra afurða. Sala á ferskum heilum laxi hefur aukist á mörkuðum í Norður-Ameríku og Asíu í kjölfar opnunar veitingastaða og greiðari flutninga.Útflutt magn af laxi jókst um 2% og verðmætið um 41%, eða 30 milljarða íslenskra króna miðað við janúar í fyrra.

Það var ekki aðeins laxinn sem var að gera það gott, árið 2022 fer einnig vel af stað í þorskinum. Í janúar nú fóru 718 tonn af ferskum þorski utan að verðmæti 662 milljónir íslenskra króna. Það er aukning um 82% mælt í verðmæti. Aldrei hefur meira farið utan af frystum þorski en nú í janúar. Alls fóru 11.800 tonn utan og verðmætið þar 6,8 milljarðar íslenskra króna. Aukningin í magni var 70%

Samdráttur í sumu

Það er þó ekki aukning á öllum sviðum. Útflutningur á skreið féll um 38% í magni og verðmætið dróst saman um 550 milljónir. Vegna samdráttar í síldarafla féll útflutningur á síldarafurðum um 46% mælt í magni og 28% í verðmæti. Slæmt veður og veiðar norskra skipa á loðnu við Ísland leiddu til samdráttar í síldveiðum Norðmanna. Svipaða sögu er að segja um makrílinn. Þar dróst útflutningurinn saman um 39% í magni og 26% í verðmæti, enda aflinn minni nú en í fyrra.

Horfur

Markaðir í Evrópu hafa tekið minna nú en í fyrra. Hlutfall Evrópu féll í janúar úr 58% í 54%. Hugsanlega hafa töluverðar verðhækkanir dregið úr eftirspurn þar, sérstaklega á afurðum úr veiðum. Sala á afurðum úr eldi jókst um 42%, en samdráttur varð bæði í magni og verðmæti á afurðum úr veiðum. Veður hefur verið erfitt í upphafi árs og því hafa veiðar dregist saman. Af einstökum tegundum hækkaði verðmæti afurða úr þorski og ufsa.

Deila: