Allt að 2.000 tonn af laxi hafa drepist í kvíum Arctic Fish

Deila:

Fram kemur í tilkynningu Norway Royal Salmon  til Norsku kauphallarinnar á laugardaginn að mikið af eldislaxi Arctic Fish í Dýrafirði sem var tilbúinn til slátrunar hafi drepist og er þá talið að magnið geti verið 1500 – 2000 tonn. Útflutningsverðmætið gæti verið 1,4 – 1,8 milljarðar króna. Tjón fyrirtækisins er ekki gefið upp en það er tryggt fyrir tjóni af þessu tagi a.m.k. að einhverju leyti.

Þar sem fyrirtækið er á opnum hlutabréfamarkaði ber að tilkynna til markaðarins um tjón eða atburði sem hafa áhrif á afkomu þess.

Í tilkynningunni segir að ástæða laxadauðans sé að almennt heilbrigði fisksins hafi látið undan og er þá væntanlega vísað til nokkurra samverkandi þátta. Ekki er um sýkingu að ræða. Brugðist var við með því að flýta slátrun og segir að starfsfólk fyrirtækisins á Íslandi hafi staðið sig vel og tekist að gera að besta úr stöðunni sem komin var upp.

Takmörkuð afköst í slátrun torvelduðu aðgerðir.

Laxadauðinn mun hafa áhrif á afkomuna á fyrsta fjórðungi ársins og einnig á það magn af laxi sem áætlað er að verði slátrað á árinu.
Frétt af bb.is

Deila: