Fundað um hlutdeild í uppsjávarstofnum

Deila:

Samningamenn frá Bretlandi, Evrópusambandinu, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Rússlandi hittust í Kaupmannahöfn í síðustu viku til að ræða nýja hlutdeild samningsaðila úr veiðum á makríl, kolmunna og norsk-íslenskri síld á þessu ári. Frá þessu er greint í frétt frá færeyskum stjórnvöldum.

Markmiðið var að ná nýjum samningum  byggðum á vísindalegum rannsóknum um útbreiðslu hvers stofns fyrir sig. Einnig að semja um hlutdeild veiðiþjóðanna í hverjum stofni til langs tíma.

Ákveðið var að funda um þessi mál að nýju á þremur fundum í London 14. til 16. mars næstkomandi í London

Samkomulag varð um að höfuðáhersla yrði lögð á yfirferð vísindamanna um landfræðilega útbreiðslu makrílsins. Byggist það á samkomulagi sem undirritað var í október síðastliðnum. Það varð einnig niðurstaðan að leggja áherslu á að komast að samkomulagi um skiptingu veiðiheimilda úr kolmunna- og síldarstofnunum til langs tíma.

Ekkert samkomulag hefur verið um hlutdeild veiðiþjóðanna úr makrílstofninum og hafa Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar staðið að sameiginlegu samkomulagi, þar sem þessar þjóðir hafa áskveðið einhliða hve mikla hlutdeild þær ætla sér og afganginn af útgefnu heildaraflamarki megi hinar þjóðirnar skipta sín á milli. Sá skerfur hefur verið langt undir þeirri hlutdeild sem Ísland telur sig eiga rétt á. Vegna þessa hefur veiði á makríl farið yfir ráðlögð mörk vísindamanna árum saman.

Deila: