Þrír blaðamenn í yfirheyrslu vegna „skæruliðadeildar“

Deila:

Þrír blaðamenn hafa verið boðaðir í yfirheyrslu í næstu viku hjá rannsóknarlögreglumanni frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra, þeir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður á Kjarnanum. Þremenningarnir hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn á meintum brotum gegn friðhelgi einkalífs með umfjöllun sinni um „skæruliðadeild“ Samherja. Frá þessu er greint á ruv.is

Í fyrravor voru birtar fréttir um samskipti fólks sem tengdist Samherja með einhverjum hætti og tilraunir þeirra til að hafa áhrif á umræðu um fyrirtækið í fjölmiðlum. Hópurinn kallaði sig „skæruliðadeildina“ og samanstóð meðal annars af Örnu Bryndísi McClure, yfirlögfræðingi Samherja, Þorbirni Þórðarsyni, almannatengslaráðgjafa fyrirtækisins, Páli Steingrímssyni skipstjóra og Jóni Óttari Ólafssyni, ráðgjafa og fyrrverandi rannsóknarlögreglumanni. Ekki hefur komið fram á hvaða gögnum umfjöllunin var byggð. Fullyrt var í fyrravor að síma Páls Steingrímssonar hefði verið stolið og Garðar Gíslason, lögmaður Samherja, sagði að þjófnaðurinn hefði verið kærður til lögreglu. Málið nú gegn blaðamönnunum þremur byggir á kæru Páls Steingrímssonar.

Stundin sagði fyrst frá því að blaðamennirnir hefðu verið boðaðir í yfirheyrslu.

Kom mjög á óvart

Þórður Snær segir í samtali við Fréttastofu RÚV að honum hafi komið mjög á óvart að fá símtal fyrir um tveimur tímum þar sem hann var boðaður í yfirheyrslu vegna gruns um brot gegn friðhelgi einkalífs. Hann furðar sig á því að blaðamenn sæti lögreglurannsókn fyrir að hafa fengið gögn og skrifað fréttir upp úr þeim. Það sé alvarlegt mál.

Þórður Snær segir ljóst af viðbrögðum við fréttum Kjarnans og Stundarinnar um „skæruliðadeildina“ að umfjöllunin hafi átt fullt erindi við almenning. Þingmenn, ráðherrar og ýmis hagsmunasamtök, þar á meðal í sjávarútvegi hafi brugðist hart við þeim upplýsingum sem komu fram í fréttunum og hafi fordæmt vinnubrögð Samherja. „Það er löngu búið að eyða öllum vafa um að þetta hafi átt erindi við almenning,“ segir Þórður Snær. „Það er alvarlegt og stórmál að ráðist sé gegn rannsóknarblaðamönnum fyrir það eitt að segja satt og rétt frá,“ segir Þórður Snær.

Skrifuðu upp úr þeim gögnum sem áttu erindi við almenning

Kjarninn stendur við sína umfjöllun um „skæruliðadeildina“, segir Þórður Snær. „Okkar umfjöllun byggir á gögnum. Við fórum yfir gögnin og skrifuðum upp úr þeim hluta sem við töldum eiga erindi við almenning,“ segir Þórður Snær. Og bætir við að enginn hafi véfengt fréttirnar. Þá hafi enginn þeirra sem átti í þeim samskiptum, sem eru grunnurinn að fréttunum, haft samband og sagt að ekki væri rétt eftir haft. Enginn þeirra gaf kost á viðtali. 

Snýst um hlutverk blaðamanna í lýðræðissamfélagi

„Þetta er risastórt mál og snertir miklu fleiri en blaðamennina sem skrifuðu fréttirnar. Þetta snýst um hvernig við skilgreinum rétt blaðamanna til að þjóna sínu hlutverki í lýðræðissamfélagi,“ segir Þórður Snær.

Norðlenskur rannsóknarlögreglumaður kemur til Reykjavíkur í næstu viku til að yfirheyra Arnar og Aðalstein. Þórður verður yfirheyrður viku síðar. 

Deila: