Spænskur togari sökk undan ströndum Nýfundnalands

Deila:

Spænski togarinn Villa de Pitanxo sökk undan strönd Nýfundnalands í gærmorgun. Að minnsta kosti 10 manns úr áhöfn hans eru látnir. Þremur var bjargað og hinna úr áhöfninni er saknað. 24 voru í áhöfn skipsins. Þetta kemur fram í fréttastofu CBC News. Togarinn er frá héraðinu Galisíu.

Aðstæður við björgun voru mjög erfiðar, fimm metra ölduhæð og fimbulkuldi. Líkur á því að lifa af í sjónum við slíkar aðstæður eru mjög litlar.  Leit verður haldið áfram í dag enda hefur veður skánað.

Þrír hinna látnu fundust í björgunarbát aðrir fundust í sjónum. Ástæður slyssins liggja ekki fyrir. Ekkert neyðarkall barst frá skipinu, sem bendir til þess að það hafi sokkið mjög hratt og skyndilega. 16 Spánverjar voru í áhöfn skipsins, fimm Perúmenn og að minnsta kosti þrír menn frá Ghana. Tvö skip frá Galisíu voru í nágrenni við togarann þegar hann sökk og náðu þau flestum líkunum.

Skipstjóri skipsins er meðal þeirra sem björguðust, en þeir sem komust af voru mjög kaldir og hraktir. Þetta er með mestu sjóslysum, sem dunið hafa yfir skip og báta frá Galisíu.

Deila: