Nýja grunnnótin virkaði vel

Deila:

,,Við hófum veiðar við Skarðsfjöruna og vorum svo komnir á svæðið út af Alviðruhömrum þegar við hættum veiðum og héldum til hafnar. Aflinn var um 1.800 tonn. Hann fékkst í fjórum köstum og nýja grunnnótin virkaði afar vel og stóð fyllilega fyrir sínu,” segir Bergur Einarsson, skipstjóri á uppsjávarveiðiskipinu Venusi NS í samtali á heimasíðu Hampiðjunnar. Um vika er síðan íslensku loðnuskipin skiptu yfir í nót frá flottrolli og segir Bergur að áður en haldið var frá Reykjavík hafi ný grunnnót frá Hampiðjunni verið tekin um borð.

„Nýja grunnnótin okkar er 524 metrar að lengd á korkateini og dýptin lóðrétt 126 metrar í hlutfallinu 1:4 sem kemur sér vel við það að mynda stóran hring utan um loðnutorfuna á grunna vatninu. Hún var 40 tonn að þyngd þegar hún var tekin um borð í skipið hjá Hampiðjunni við Skarfagarða í Reykjavík um síðustu helgi. Grunnnótin er afskaplega sterkbyggð úr sveru nótagarni frá 210/36 upp í 210/72 í pokanum til að þola þau átök er verða við veiðar á grunnslóð þar sem við erum að veiða niður á 80 metra dýpi og upp að 10 metra dýpi á suðurhelmingi strandlengjunnar hér við land,“ segir Bergur.

„Það eru 3600 nótaflot á korkateininum til að vega upp á móti þyngd nótaefnisins í sjónum og við hnýtum það næstum því í tvöfaldri röð á öllum korkateininum.
Möskvastærðin í allri nótinni er 19,6 mm að undanteknum útendanum. Þess má geta að þar eru u.þ.b. 5100 möskvar í einum fermetra af útstrekktu loðnuneti í nótinni. Nótin virkaði mjög vel bæði í köstun og snurpingu og drógst mjög jöfn inn í gegnum kraftblokkakerfið aftur í nótakassann,“
segir Bergur.

„Eins og ég sagði áður að þá fengust þessi 1.800 tonn í aðeins fjórum köstum. Loðnan er mjög góð, hængur og hrygna nokkurn veginn til helminga, og hrognafyllingin er komin í 15,7%. Það dugar vel til vinnslu og aflinn á að fara til heilfrystingar,” segir Bergur.

Spáð var brælu á loðnumiðunum a.m.k. fram á miðvikudagskvöld en Bergur segir að það hafi verið komin bræla um hádegisbilið í dag.

,,Það er nokkur ferð á loðnunni og ég reikna með að hún verði komin að Vestmannaeyjum þegar við komumst út aftur,” segir Bergur Einarsson.

Deila: