Í 34 ár á sama skipinu

Deila:

Maður vikunnar er skipstjóri og hóf sjómennsku 15 ára gamall. Hann gleymir því aldrei þegar hann sá um 100 – 120 hvalir að stökkva og slá niður bægslunum. Þetta var stórkostleg sjón sem ég gleymi aldrei. 

Nafn:

Heimir Guðbjörnsson

Hvaðan ertu?

Reykjavík.

Fjölskylduhagir?

Giftur Þuríði Bryndísi Guðmundsdóttur og eigum við þrjú uppkomin börn og 7 barnabörn.

Hvar starfar þú núna?

Er hjá Brim á Helgu Maríu RE 1 og hef verið þar í 34 ár á sama skipinu sem er líklega einsdæmi.

Hvenær hófstu vinnu við sjávarútveginn?

Þegar ég var 14 ára hjá Sambandinu á Kirkjusandi. Fór svo á sjóinn 15 ára og þar hef ég verið að undanskildum námi í  Stýrió og Tækniskólanum í útgerðartækni. 

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við sjávarútveginn?

Það er spennan og eftirvæntingin hvernig túrinn tekst til. Svo að hafa séð allar þær breytingar á greininni á þessum árum. 

En það erfiðasta?

Brælurnar sem geta haft svo mikil áhrif á hvernig til tekst og miklar fjarverur frá fjölskyldunni. 

Hvað er það skrýtnasta sem hefur komið fyrir þig í störfum þínum?

Ég var stýrimaður á gamla Árna Friðrikssyni hjá Hafró öll fjögur árin sem verið var að mæla hvalastofninn við landið. Strákar frá Hval h/f voru með okkur á útkíkki uppá brúarþaki. Skyndilega kölluðu þeir til mín að setja stefnu í Norður. Ég beið spenntur eftir að fara að sjá hvalina en við vorum búnir að sigla í  1-2 tíma þegar ég loksins sá þá og kom í ljós að það voru þarna um 100 – 120 hvalir að stökkva og slá niður bægslunum. Þetta var stórkostleg sjón sem ég gleymi aldrei. 

Hver er eftirminnilegasti vinnufélaginn þinn?

Það eru svo margir eftirminnilegir félagar sem ég hef verið með að erfitt er að gera upp á milli þeirra margir stórskemmtilegir sögu- og brandarakallar og vandaðir menn sem maður tók sér til fyrirmyndar.

Hver eru áhugamálin þín?

Fjölskyldan og ferðalög. 

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Humar og mest allur fiskur.

Hvert færir þú í draumafríið?

Ítalíu þar er svo fallegt og fólkið og maturinn svo góður.

Deila: