Metafkoma hjá Eimskip

Deila:

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna á fjórða ársfjórðungi og árinu í heild en við skilum nú metafkomu. Framlag starfsmanna var framúrskarandi og okkur tókst að halda uppi háu þjónustustigi í mjög krefjandi rekstrarumhverfi. Fjárhagslega héldum við áfram að byggja á samþættingu og hagræðingu síðustu ára, þeim aðlögunum sem gerðar hafa verið á rekstrinum  ásamt virkri tekjustýringu ásamt hagstæðu ytra umhverfi, sérstaklega á alþjóðaflutningsmörkuðum. EBITDA var sterk á árinu og nam 114,3 milljónum evra og hefur aðlagaður hagnaður aldrei verið hærri en hann nam 50,6 milljónum evra.“ Þetta segir Vilhelm Márr Þorsteinsson, forstjóri Eimskips um afkomu félagsins á síðasta ári. Hann segir ennfremur:

Vilhelm Már Þorsteinsson.

„Hlutfall tekna sem eiga uppruna sinn utan Íslands hefur farið vaxandi og hefur í raun aldrei verið hærri en það var á fjórða ársfjórðungi eða 61%. Alþjóðlega flutningsmiðlunin okkar skilaði sterkri niðurstöðu, sérstaklega í Asíu, á markaði sem einkenndist af mjög háum alþjóðaflutningsverðum og skorðum á afkastagetu meirihluta ársins. Þessi aukna hlutdeild og góð frammistaða á alþjóðasviðinu okkar hefur dregið úr hefðbundinni árstíðasveiflu í afkomu.

Við höfum lagt mikla áherslu á að bæta afkomuna í áætlunarsiglingum sem er nú að skila sér. Magn í útflutningi frá Íslandi var sterkt og við hlökkum til að veita viðskiptavinum okkar í sjávarútvegi flutningalausnir á yfirstandandi loðnuvertíð. Magn í Trans-Atlantic þjónustunni okkar jókst verulega á árinu og eftirspurn eftir flutningi vestur um haf til Norður Ameríku er áfram mikil. Magn til og frá Færeyjum jókst eftir því sem leið á árið eftir að hafa farið hægt af stað t.d. vegna áframhaldandi COVID-19 áhrifa og breyttum markaðsaðstæðum í kjölfar Brexit.  Afkoman á innanlandssviði var sterk og naut góðs af magni í áætlunarsiglingum.

Við leitumst við að bjóða viðskiptavinum okkar uppá framúrskarandi þjónustu sem leiðandi flutningafyrirtæki í Norður Atlantshafi. Síðustu tvö til þrjú ár höfum við farið í stefnumarkandi fjárfestingar í tæknilausnum til að styðja við þjónustu til viðskiptavina okkar og erum t.d. að innleiða Microsoft Customer Engagement, ný kerfi fyrir áætlunarsiglingar og flutningsmiðlun, gámastýringarkerfi og nýtt uppgjörs og áætlunarkerfi.

Rík áhersla er lögð á sjálfbærni í rekstri Eimskips. Við höldum áfram að stíga skref í átt að notkun grænnar orku í rekstrinum okkar m.a. með fjárfestingum í rafknúnum hafnarkrönum og umhverfisvænni gámalyfturum, flutningabílum og smærri bílum. Það er ánægjulegt að sjá að nýju skipin okkar Brúarfoss og Dettifoss eru að skila minnkaðri losun pr. flutta einingu. Þrátt fyrir það erum við meðvituð um þörfina á nýjum orkugjafa fyrir skip á næstu árum til að ná markmiðum um minnkun útblásturs.

Árið 2022 fer vel af stað og er afkoman hingað til framar væntingum, bæði í áætlunarsiglingum og flutningsmiðlun og við erum bjartsýn á útlitið bæði með tilliti til magns og framlegðar. Nú er gert ráð fyrir að þær óvenjulegu aðstæður sem einkennt hafa alþjóðlega flutningamarkaði munu vara fram á seinni helming ársins.“

Deila: