Blængur með góðan túr og stefnir í Barentshafið

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til hafnar í Neskaupstað í gærmorgun og hófst þegar löndun úr skipinu. Aflinn er 430 tonn upp úr sjó og er hann blandaður, mest ufsi, þorskur og karfi en einnig ýsa og grálúða. Verðmæti aflans er um 170 milljónir króna. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði hvernig túrinn hefði gengið.

„Miðað við allt og allt var þetta fínn 20 daga túr, en við vorum fimm daga frá veiðum vegna veðurs og bilunar. Við lágum til dæmis þrjá sólarhringa undir Grænuhlíð vegna veðurs og þurftum að fara inn til Hafnarfjarðar vegna bilunar. Þá fórum við tvisvar í land til að sækja menn sem voru búnir að losa sig við covid. Það gekk semsagt á ýmsu í túrnum en það er ekkert hægt að kvarta undan veiðinni á meðan við gátum verið að,“ segir Bjarni Ólafur.

Síðar í vikunni mun Blængur halda til veiða í Barentshafinu. Þar verður veitt í norskum sjó og gera má ráð fyrir 40 daga túr. Stefnt er að því að veiða þar um 1.300 tonn. Ef marka má fréttir hefur verið ágætis kropp í Barentshafinu að undanförnu en engin mokveiði.
Blængur NK. Ljósm. Hafþór Hreiðarsson

Deila: