Benchmark Genetics Iceland eykur hrognaframleiðsluna

Deila:

„Rekstur inn gekk mjög vel á síðasta ári. Við erum að auka afkastagetuna og höfum farið í gegnum umhverfismat með stöðina okkar í Vogum. Við vorum þar með 200 tonna leyfi, en erum nú komnir með leyfi fyrir 500 tonnum. Það gefur möguleika á stækkun á þeirri stöð í framtíðinni. Við byggðum nýtt hrognahús í fyrra sem við tókum í gagnið fyrir síðustu áramót og framleiðum hrogn til afhendingar út um allan heim,“ segir Jónas Jónasson, forstjóri Benchmark Genetics Iceland. Fyrirtækið hét áður Stofnfiskur.

Allar íslensku eldisstöðvarnar taka hrogn frá Benchmark en auk þess selur fyrirtækið hrogn til flestra fiskeldisfyrirtækja í Færeyjum, mikið fer til Skotland og Noregs sömuleiðis.

Jónas Jónasson

Miklar fyrirætlanir um landeldi

„Nú eru miklar fyrirætlanir um landeldi á laxi víða um heim og hér heima sömuleiðis. Við munum sjá landeldinu fyrir hrognum líka. Við höfum eytt miklu púðri og rannsóknum til að fá laxinn hjá okkur til að hrygna allt árið um kring og getum þannig mætt mikilli eftirspurn eftir hrognum allt árið. Það er mikilvægt fyrir landeldið. Við höfum sérhæft okkur í því og Benchmark er í farabroddi með slíka tækni. Það eru engar árstíðir í landeldi, enda allt saman undir þaki og því er hægt að setja út seiði allt árið. Laxeldi í sjó er háð því að setja út seiði snemma að vori og fram á haust,“ segir Jónas.

Það er mikil eftirspurn eftir laxi um allan heim. Nú eftir áramótin eru menn að fá allt að 100 krónum norskum fyrir kílóið, nærri 1.400 íslenskar krónur.

„Eftirspurnin eftir eldislaxi eykst stöðugt, en framleiðslugetan fylgir í kjölfarið. Þegar þetta er allt í svona örum vexti verðum við að stækka með og verðum alltaf að eiga nóg og fylgjast mjög vel með þróuninni. Það er margt sem er að hjálpa okkur í þessu. Þar má til dæmis nefna þróun við geymslu á laxi og undirkælingu, sem leiðir til þess að við getum flutt ferskan  lax í gámum til Bandaríkjanna, en nú eru menn háðir flugi og framboði á því. Fyrir örfáum misserum var þetta ekkert hægt. Þessi þróun bætir samkeppnisstöðu laxeldis á Íslandi verulega. Menn gleyma því stundum að það er mikil tækni sem þróast hefur í hefðbundnum fiskiðnaði á Íslandi sem laxeldismenn geta líka tileinkað sér, bæði undirkælingu og meðferð á fiski. Flutningurinn hefur verið okkar Akkillesarhæll og við höfum ekki haft aðgang að eins örum flugferðum til Bandaríkjanna eins og aðrar eldisþjóðir. Það hefur heft okkur svolítið en mér sýnist það vera að breytast,“ segir Jónas Jónasson.

Milljarður í hagnað

Benchmark Genetics Iceland hf. – áður Stofnfiskur hf. – hagnaðist um ríflega milljarð króna á síðasta rekstrarári, sem er lítillegur samdráttur milli ára, samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins.

Tekjur námu 3,8 milljörðum og drógust einnig lítillega saman, en fjórföldun virðisbreytingar lífmassa í 400 þúsund krónur skilaði hækkun rekstrarhagnaðar fyrir rannsóknar- og þróunarkostnað upp á tæpar 100 milljónir milli ára, sem nam 1,9 milljörðum króna.

Heildareignir námu 7,6 milljörðum í lok síðasta rekstrarárs, sem lauk í lok september, og jukust um tæpan fimmtung milli ára. Eigið fé nam 6,2 milljörðum og hafði aukist um ríflega fimmtung, og eiginfjárhlutfall nam því 81% og hækkaði um ríflega prósentustig.

Greidd laun námu rétt rúmum 800 milljónum og jukust um tæpan fimmtung milli ára, en ársverk voru 80 og fjölgaði um 4. Meðallaun á mánuði námu því 836 þúsund og hækkuðu um 13%. Hvorki var greiddur arður á síðasta né þarsíðasta ári, né leggur stjórn til greiðslu arðs í ár.

Í skýrslu stjórnar eru stjórnendur sagðir telja aðstæður fyrir laxeldi og sölu laxafurða hagfelldar um þessar mundir, og hafa í samræmi við það fjárfest í aukinni framleiðslugetu.

Deila: