Emmi minn, hvað heitirðu?

Deila:

 Elmar Hrafn Óskarsson er með marga hatta til skiptanna og ber jafnvel fleiri en einn samtímis ef svo ber undir. Vandalaust er til að mynda að vera verkstjóri í botnfiskvinnslu og hafa um leið Manchester United sem staðfastan ástmög sinn. Vandalaust er líka að ræða um gæðastjórnun við Binna framkvæmdastjóra eða Sverri Haralds, sviðsstjóra á botnfisksviði, og herma svo eftir þeim um leið og þeir standa upp af fundinum og snúa baki í sprellarann. Rætt er við Elmar á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Allt þetta höndlar Elmar Hrafn auðveldlega, margfalt betur þekktur sem Emmi. Hann útskrifaðist á dögunum úr gæðastjórnunarnámi í Fiskvinnsluskólanum með stuðningi Vinnslustöðvarinnar og starfar sem verkstjóri og gæðastjóri í botnfisksvinnslu VSV.

Í verkstjórakompunni hefur verkstjórinn Marta Möller líka skrifborð og tölvu eins og vera ber. Sömuleiðis Benóný Þórisson – Bennó, framleiðslustjóri í uppsjávarvinnslunni. Bennó dugar ekki minna en að hafa kontór á tveimur stöðum í Vinnslustöðinni.

Í kompu verkstjóranna eru tveir stórir fánar rauða liðsins í Manchester á veggjum, með mikilli velþóknun þeirra sem þar hafa afdrep.

Við Marta og Bennó erum öll heittrúað Manchester United-fólk. Það væri réttast að Vinnslustöðin hefði það í ráðningarsamningi verkstjóra að stuðningur við Liverpool komi ekki til álita enda myndi enginn Púlari þrífast til lengdar í kompunni okkar.

Ég tók nýlega við af Halla Bedda sem gæðastjóri og er að hefja fimmtánda árið sem starfsmaður Vinnslustöðvarinnar. Byrjaði fastráðinn 2008, þá liðlega tvítugur.

Við Bennó erum jafnaldrar, höfum þekkst og verið vinir frá við vorum peyjar, fylgdumst að upp grunnskólann og störfum nú á sama vinnustað. Hárið hans er horfið en ég held mínu. Þess vegna halda ókunnugir að hann sé talsvert eldri enn hann er. Ég get ekkert gert að því að vera unglegri en Bennó.

Á sínum tíma hringdi mamma Bennó í Þór Vilhjálmsson, þáverandi starfsmannastjóra Vinnslustöðvarinnar, til að fá vinnu fyrir soninn. Það gekk eftir. Hún spurði mig hvort ég vildi ekki fara líka á vakt í Vinnsló og það varð úr. Þannig atvikaðist það að við Bennó byrjuðum hér á sama degi, báðir í pökkun á loðnuvertíð, blautir á bak við bæði eyru.

Eftir grunnskóla vann ég með pabba í hellulögnum í fjögur til fimm ár. Fór þá til Reykjavíkur í nám í múrverki í Tækniskólanum. Þegar bankarnir hrundu haustið 2008 brast á efnahagskreppa og atvinnuleysi. Þá varð ég skíthræddur um að daga uppi verkefnalaus og hringdi í Þór Vilhjálms. Hann sagði marga á biðlista eftir í vinnu í Vinnslustöðinni og gat ekki gefið mér svar af eða á. Ég dreif mig þá heim til Eyja og um leið hringdi Þór og sagði mér að mæta til vinnu að morgni næsta dags. Það gerði ég að sjálfsögðu og var varla búinn að setja mig í vinnustellingar þegar hann mætti með fastráðningarsamning fyrir mig að skrifa undir. Það gerði ég og hér er ég enn!

Grallaraspóar á árshátíð

Emmi og félagi hans hjá VSV/Hafnareyri, Hafliði Sigurðarson, slógu rækilega í gegn á árshátíð Vinnslustöðvarinnar í vetur með myndbandi sem þeir settu saman. Þar fengu  vinnufélagar þeirra, einkum yfirmennirnir, fengu heldur betur að kenna á því með glensi og eftirhermum. Emmi var löngu áður þekktur á vinnustaðnum fyrir sprell og eftirhermur. Fórnarlömbin eru ekki síst ofan við hann í skipuriti fyrirtækisins.

Mamma segir að ég hafi byrjað barnungur á því að herma eftir fígúrum í barnaþáttum í sjónvarpi og síðan þróaðist þetta. Ég hef ofboðslega gaman af því að pæla í fólki og stúdera á alla kanta. Hver og einn hefur sín sérkenni; einhverja takta eða kæki, sérstakan talsmáta eða rödd. Ég sýg þetta í mig og neita mér ekki um að herma eftir viðkomandi svo lítið beri á. Ég þrífst á gríni og gamni, alvara er ekki skemmtileg nema í miklu hófi!

Áður hermdi ég mest eftir þjóðþekktu fólki sem birtist aftur og aftur á sjónvarpsskjánum en þarf þess ekki lengur því svo margir spes karakterar eru í Vinnslustöðinni að dugar mér algjörlega sem viðfangsefni.

Morgunfundir yfirmanna eru til dæmis eins og skrifaðir eftir handriti. Þegar ég hafði setið þá nokkra kunni ég rullurnar og taktana utan bókar. Einu sinni voru nokkrir forfallaðir og þá tók ég að mér að leika hlutverk allra sem vantaði og herma eftir þeim. Sá fundur var skemmtilegur og ekki hökti starfsemin þann daginn.

Binni og Sverrir Haralds fá alltaf sína skammta, elskulegir yfirmenn mínir. Sjáðu til dæmis Binna sem situr heilu fundina með gleraugun frammi á blábroddi nefsins. Hann horfir allan tímann á okkur yfir gleraugun og fer með talnarunurnar sínar. Ég velti fyrir mér hvort hann sjái virkilega betur ofan við gleraugun en gegnum sjónglerin? Veit ekki svarið en sérstakt er þetta og ábyggilega rannsóknarefni fyrir augnlækna og sjóntækjafræðinga.

Sverrir hefur kæki sem gleðja mig mjög en ég fer ekki nánar út í það. Maður verður að gæta orða sinna.

Þór formaður og gítarinn

Sólveig Adolfsdóttir, kærasta og sambýliskona Emma undanfarin tólf ár, er barnabarn títtnefnds Þórs Vilhjálmssonar. Emmi hefur sögur að segja af þessum fyrrverandi yfirmanni og allsherjarreddara í Vinnslustöðinni.

Þór Vilhjálms hefur frætt mig meira um Vinnslustöðina en nokkur annar. Sögurnar hans eru óþrjótandi en sem betur fer hefur hann svo mikið að gera sem formaður að ég fæ af og til pásur frá því að hlusta á allt það sem gerðist í fyrirtækinu frá því um miðja síðustu öld.

Þór er formaður ÍBV og formaður Félags eldri borgara í Eyjum. Þegar stórfjölskyldan okkar heldur garðhátíð í þjóðhátíðarvikunni tekur Þór til máls og flytur ræðu. Ef hann sér fleiri en sex koma saman einhvers staðar finnst honum það vera félagsfundur og hann sé þar formaður sem verði að kveðja sér hljóðs. Formennskan er karaktereinkenni.

Fyrir þremur árum keypti ég gítar í verslun í Reykjavík, millifærði greiðslu og gekk frá öllu. Bað þá í búðinni um að merkja mér hljóðfærið þar til ég fengi far fyrir það til Eyja.

Þór Vilhjálms átti leið til Reykjavíkur og ég bað hann um að kippa með sér gítarnum á heimleið. Svo hringdi síminn minn, Þór á línunni, staddur á búðargólfi í höfuðborginni:

– Emmi minn, hvað heitirðu?

– Hvað heiti ég??

– Já, hvað heitirðu? Hér er enginn gítar frátekinn fyrir Emma.

– Ertu ekki að grínast? Ertu að segja mér að þú vitir enn ekki hvað pabbi langafabarnanna þinna heitir!?

– Ja, það er hér gítar merktur einhverjum Elmari. Vildi bara vera viss. Ég nefndi við afgreiðslumanninn að þú hefði kannski mismælt þig þegar þú gafst upp nafnið þitt …

Deila: