Jón pinkill eftirminnilegur
Maður vikunnar er Ísfirðingur í húð og hár og hefur hann búið þar alla tíð. Hann byrjaði að stunda sjóinn á tólfta árinu og er enn að klóra sér í hausnum yfir því hvernig honum mistókst að ná tveimur hrefnum í sama skotinu.
Nafn:
Heimir Tryggvason.
Hvaðan ertu?
Ísafirði og hef búið þar alla tíð.
Fjölskylduhagir?
Giftur og með 3 uppkomin börn og barnabörnin orðin 6.
Hvar starfar þú núna?
Ég er starfsmaður Ísafjarðarhafnar.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Á tólfta ári, sumarið árið 1975 fór ég á grásleppu með afa mínum og pabba. Þeir drógu netin á árabát og ég sigldi 17 tonna bátnum á meðan og gerði að grásleppunni sem veiddist.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Það er að vera við góða veiði, í góðu veðri, með góðum mönnum. Fátt skemmtilegra en það.
En það erfiðasta?
Bræla og reiðileysi og sérstaklega er þau bæði komu saman.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í störfum þínum?
Það var á Hrefnuveiðum árið 1982 á Breiðafirði. Þegar það komu tvær Hrefnur upp samsíða, hlið við hlið, í dauðafæri og þá átti að nota tækifærið, slá tvær flugur í einu höggi og skjóta þær báðar í einu. En skutullinn fór á milli þeirra og ég er ennþá að klóra mér í hausnum hvernig í andskotanum það gat gerst!
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Það er af mörgum að taka. Benni Överby og Addi Kitta Gau – skipstjórar á Páli Páls þegar ég byrjaði þar til sjós, heiðursmenn. Jón pinkill líka eftirminnilegur, sérstaklega á laugardögum þegar hann og Gummi Sigurvins rifust um það hvort grjónagrautur héti Steingrímur eða Grjónagrautur. Það þrætuepli stóð í 29 ár og fékkst ekki úr því skorið.
Hver eru áhugamál þín?
Ferðalög, sérstaklega að keyra um á húsbílnum.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Fiskur í raspi!
Hvert færir þú í draumfríið?
Húsbílaferð um Evrópu. Hún hefur verið á dagskrá frá því fyrir covid og vonandi kemst ég af stað í haust.