Þorskur með marmelaði og meiru

Deila:

Þó þorskkvótinn hafi verið skorinn niður um 12% á þessu ári er meira en nóg til fyrir okkur. Reyndar fara um 98% þorskins utan í verslanir og veitingahús austan hafs og vestan. Allir vilja fá okkar gómsæta fisk af ísköldum og ómegnuðum Íslandsmiðum. Við höfum það forskot að geta fengið hann enn ferskari en erlendir neytendur og um að gera að nýta sér það. Hér kemur einföld og heilnæm uppskrift að austurlenskum hætti fyrir fjóra.

Innihald:

  • 4 msk appelsínumarmelaði
  • 4 tsk. sesamolía
  • 2 tsk. sojasósa
  • 2 tsk. saxaður engifer
  • 4 hvítlauksgeirar
  • 2 msk. hrísgrjónaedik
  • ½ tsk. miso (Japanskt krydd sem fæst í austurlenskum matvöruverslunum.)
  • 2 msk. ólívuolía
  • 4 160 gramma þorskbitar, roð- og beinlausir
  • ½  tsp. nýmalaður svartur pipar
  • 2 msk. furuhnetur
  • 2 vorlaukar

Aðferð:

  1. Setjið pott á miðlungshita og blandið þar saman marmelaði, sesamolíu, sojasósu, engifer, hvítlauk, hrísgrjónaediki og miso. Hrærið blöndunni vel saman og hitið að suðu. Takið þá pottinn af hellunni.
  2. Setjið pönnu á miðlungshita með smávegis af olíu. Kryddið fiskbitana beggja vegna með pipar og steikið fiskinn í 3 til 4 mínútur á hvorri hlið. Færið fiskinn yfir í eldfast mót og setjið um það bil eina matskeið af sósunni á hvern bita. Bakið þorskinn í ofninum 5-8 mínútur efir þykkt fiskstykkjanna. Færið fiskinn svo upp á diska, jafnið því sem eftir er af sósunni yfir fiskbitana og berið þá fram með ristuðum furuhnetum og söxuðum vorlauk, hrísgrjónum og fersku salati að eigin vali.
Deila: