Viljum vera vindurinn í seglið

Deila:

Sveitarfélagið Ölfus vinnur nú með þremur til fjórum fyrirtækjum sem ætla sér risastórt eldi á laxi á landi hvert fyrir sig. Framleiðslan gæti numið í kringum 100.000 tonnum á ári samtals, gangi væntingar eftir. Í þessu samhengi er rétt að benda á að heildarframleiðsla á eldislaxi á síðasta ári var 35.000 tonn. Auk þessa er seiðaeldi mjög umsvifamikið í Ölfusinu.

Mikið og vaxandi seiðaeldi

„Fiskeldi í Ölfusi er þegar orðið allverulegt. Á seinustu árum hefur seiðaeldi verið mjög umfangsmikið.. Ég huga að það láti nærri að meirihluti alls lax sem alinn er í sjókvíum á Íslandi komi sem seiði úr Ölfusinu. Þessar stöðvar hafa verið að stækka mjög mikið. Trú markaðarins á laxeldi á Íslandi er mikil og fjárfestingar í samræmi við það,“ segir Elliði Vignisson, sveitarstjóri í Ölfusi.

Landeldið er nú að koma mjög sterkt inn í þetta og sveitarfélagið er núna að vinna með þremur til fjórum mjög stórum fyrirtækjum að þauleldi á laxi á landi. Út úr því gæti auðveldlega komið ársframleiðsla upp á 80.000 til 110.000 tonn, ef stærstu áform allra þessara fyrirtækja verða að veruleika.
En hvers vegna er þessi mikla uppbygging í Ölfusi?

Elliði Vignisson

Ölfusið heppilegt fyrir laxeldi

„Fyrir það fyrsta er eldi á laxi vistvæn matvælaframleiðsla sem tengist inn á mjög djúpa og sterka markaði erlendis. Það eru nokkrir staðið á Íslandi sem henta mjög vel til þessarar framleiðslu og Ölfus er eitt þeirra. Sennilega er er Ölfusið, með fullri virðingu fyrir öðrum svæðum, það besta. Þeir sem hér munu ala lax eiga þess kost að framleiða lax í hæsta gæðaflokki á heimsvísu með tilheyrandi jákvæðum tekjumöguleikum. Þetta helgast af vatnsgæðum og tækilegum möguleikum svæðisins auk ýmis konar tækni og öflugrar inn- og útflutningshafna. Það er eiginlega sama til hvaða þátta er litið, þá er Ölfusið afa heppilegt fyrir svona starfsemi og áhuginn eftir því.“

Hvaða þýðingu hefur svona mikið fiskeldi fyrir sveitarfélagið?

Mikill fjöldi starfa

„Sé miðað við meðalstóra fiskeldisstöð upp á 25.000 tonn, getur hún skapað 100 til 150 bein störf og enn fleiri ef hliðarstarfsemi og hringrásarstarfsemi er tekin með. Þá má nefna gróðurhús og metanframleiðslu og fleira. Það eru alveg góðar líkur fyrir því að laxeldi geti orðið ný undirstöðuatvinnugrein á Íslandi, til hliðar við aðrar stoðir hagkerfisins.

Þessu mun svo fylgja öflug félagsstarfsemi í nýsköpun og þjónustu við greinina. Það verður til þekkingariðnaður í kringum eldisferlið, rannsóknir og tækjabúnaður, sem líka mun skapa ótal mörg störf og tækifæri,“ segir Elliði og heldur áfram:

Greiða leiðir þeirra sem vilja koma

„Framtíðin er virkilega björt og þetta er eitt af þessum verkefnum sem við stöndum frammi fyrir í þessu góða sveitarfélagi. Við erum að fylgja þessu mjög fast eftir til að geta þjónustað starfsemina á markvissan hátt. Við erum með klasa sem heitir Ölfus Clauster. Hann veitir farveginn fyrir þessar hugmyndir og tryggir samstarf á milli fyrirtækja og  sveitarfélagsins. Við finnum mjög vel hve mikilvægt það er að hafa slíkt úrræði. Við reynum að greiða leiðir fyrirtækja sem hingað vilja koma  eftir fremsta megni. Nægt er nú flækjustigið fyrir þá. Við viljum frekar vera vindurinn í seglið en ekki skerið sem skipir steytir á.“

Hversu stór eru þessi áform í raun?

Af sömu stærð og risavaxin innviðaverkefni

„Stærðin á þessu er svo mikil og það er svo erfitt fyrir fólk að átta sig á henni, þegar við erum að tala um þetta. Þetta er ekki lítil tjörn með fáeinum fiskum í. Fiskeldisstöðvar af þeirri stærðargráðu sem þessi fyrirtækja eru að áforma hér eru gríðarleg. Fjárfestingin á bakvið áformin eru af sömu stærð og innviðaverkefni eins og nýr Landspítali eða Keflavíkurflugvöllur. Náist að veita þeim gott brautargengi þá er augljóst að þetta á eftir að hafa gríðarleg áhrif á landinu öllu, ekki bara í Ölfusinu,“ segir Elliði Vignisson.

Viðtalið við Elliða birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri, sem Ritform gefur úr. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land, en það má einnig nálgast á slóðinni https://ritform.is/

Deila: