425.000 tonn af loðnu komin á land

Deila:

Loðnuskipin eru nú að fylgja loðnugöngunni allt norður að sunnanverðum Vestfjörðum og sú loðna, sem lengst er komin, er að nálgast hrygningu. Vinnsla á hrognum er hafin fyrir nokkrum dögum, en þar liggja mestu verðmætin. Innrás Rússa í Úkraínu hefur sett stórt strik í sölu á heilfrystri loðnu en mikil óvissa ríkir nú um sölu á loðnu til landa í Austur-Evrópu.
Íslensku skipin hafa nú landað 425.000 tonnum af heildarkvóta upp 662.000 tonn. Ekki liggur fyrir hver endanlegur kvóti verður, því eftir á að færa til íslenskra skipa leifar Norðmanna, sem ekki náðu kvóta sínum. Það gætu verið um 50.000 tonn, en einnig á eftir að taka tillit til ráðgjafar Hafró um 35.000 tonna lækkun á leyfilegum heildarafla. Nú eru óveidd tæplega 240.000 tonn af útgefnum kvóta, sem gæti hækkar vegna yfirfærslu frá Norðmönnum. Nú er það því spurning hvort íslensku skipin nái að klára kvóta sinn, því líklega eru í mesta lagi þrjár vikur eftir af vertíðinni. Loðnan drepst eftir hrygningu og sekkur til botns og verður þar fæða fyrir botnlægar tegundir.

22 íslensk skip stunda nú veiðarnar og hafa níu þeirra veitt meira en 20.000 tonn. Aflahæsta skipið á vertíðinni nú er Börkur NK með 32.080 tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Næstu skip eru Vilhelm Þorsteinsson EA með 27.778 tonn, Beitir NK með 27.737 tonn, Heimaey VE með 24.424 tonn, Venus NS með 23.579 tonn, Víkingur AK með 21.946 tonn, Aðalsteinn Jónsson SU með 21.367 tonn, Sigurður VE með 21,136 tonn og Jón Kjartansson SU með 20.682 tonn.

Deila: