Mjög gott ár hjá Síldarvinnslunni

Deila:

„Reksturinn var mjög góður á árinu og á fjórða ársfjórðungi var starfsemin  umfangsmikil með tilkomu loðnuveiða.  Nær samfleytt frá miðjum júní var unnið á 12 tíma vöktum í fiskiðjuveri fyrirtækisins við manneldisvinnslu. Það mæddi mikið á öllum starfsmönnum félagsins.

Veiðar á makríl voru þyngri en í fyrra en áframhaldandi veiðisamstarf gerði skipunum kleift að ná kvótum og hámarka verðmæti miðað við ástand fisksins.  Norsk-íslenska síldin hélt sig hér við landið. Vel gekk að veiða hana og gæði fisksins voru mikil.  Bolfiskveiðar gengu vel,“ segir Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar og heldur áfram:

Gunnþór B. Ingvason

„Markaðir fyrir framleiðsluvörur félagsins eru almennt sterkir um þessar mundir og eftirspurn góð. Vel hefur gengið að losa afurðir.  Þetta endurspeglar þau verðmæti sem felast í íslensku sjávarfangi og mikilvægi þess að við höldum áfram þeirri vegferð að vinna að aukinni verðmætasköpun og nýtingu með sjálfbærum hætti.

Óvænt loðnuráðgjöf á haustmánuðum kallaði á að teknar yrðu stórar ákvarðanir til að freista þess að ná að vinna þann kvóta sem gefinn var út.  Haustveiðar voru á loðnu í fyrsta sinn í mörg ár.

Efnahagur félagsins er sterkur og er það trú okkar að sjávarútvegsfyrirtæki eins og okkar eigi að hafa sterkan efnahag svo unnt sé að takast á við þær sveiflur sem einkennt geta íslenskan sjávarútveg og gera okkur kleift að mæta áskorunum eins og birtast núna með hörmungunum í Úkraínu.

Lykillinn að góðum árangri félagsins er öflugt starfsfólk sem hefur lagt mikið á sig í störfum á árinu til að ná þeim árangri sem raun ber vitni.  Það er búið að mæða mikið á starfsfólkinu; vertíðir hafa verið langar, miklar fjárfestingar, félagið skráð á markað og ný félög bæst í samstæðuna.  Auk þess höfum við ekki farið varhluta af Covid sem hefur haft verulega aukið álag á starfsfólk og starfsemina.  Starfsfólkið hefur lagt sig fram á öllum vígstöðvum og staðið sig með mikilli prýði og sýnt mikla samstöðu.“

Starfsemin á árinu

  • Loðnuveiðar voru leyfðar aftur og þrátt fyrir lítinn loðnukvóta á vertíðinni tókst vel að hámarka verðmæti hans.  Þessu var svo fylgt eftir með mikilli úthlutun fyrir yfirstandandi vertíð sem kallaði á stórar ákvarðanir.
  • Veiðar og vinnsla á síld og makríl gengu vel á árinu. Aukning var í nýtingu íslensku síldarinnar til manneldis.
  • Markaðsskilyrði voru hagstæð og vel tókst að selja afurðir.
  • Bolfiskmarkaðir hafa verið að styrkjast. Veiðar og vinnsla á bolfiski gengu vel.
  • Félagið var skráð á markað. Hluthöfum fjölgaði og voru yfir 4000 í árslok.
  • Fjárfestingar voru töluverðar. Bergur ehf. varð hluti af samstæðunni, nýr Börkur kom um mitt ár og uppbygging fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað hófst.
  • Framleiðslumet var sett í uppsjávarfrystihúsinu á árinu.

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri fjórða ársfjórðungs og ársins

  • Rekstrartekjur á fjórða ársfjórðungi voru 65,8m USD og 237,2m USD á árinu 2021
  • EBITDA á fjórða ársfjórðungi var 24,9m USD og 84,6m USD á árinu 2021.
  • Hagnaður fjórða ársfjórðungs var 17,4m USD en 87,4 USD á árinu 2021. Þess ber að geta að 23,6m USD voru vegna söluhagnaðar sem myndaðist við afhendingu SVN eignafélags til hluthafa.
  • Heildareignir samstæðunnar í lok ársins 2021 námu 634,2m USD og eiginfjárhlutfall var 67%.

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar á fjórða ársfjórðungi voru 65,8m USD og 237,2m USD á árinu 2021. Árið 2020 voru tekjurnar 46,3m USD á fjórða ársfjórðungi og 179,4m USD á árinu.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á fjórða ársfjórðungi var 24,9m USD eða 37,8% af rekstrartekjum, en á fjórða ársfjórðungi árið 2020 var EBITDA 14,1m USD eða 30,4% af rekstrartekjum. Á árinu 2021 var EBITDA 84,6m USD eða 35,7% af rekstrartekjum. Til samanburðar var hún 59,1m USD á árinu 2020 eða 32,9% af rekstrartekjum.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 23,3m USD á fjórða ársfjórðungi og 103,7m USD á árinu 2021 samanborið við 17,1m USD á fjórða ársfjórðungi 2020 og 48,0m USD á árinu 2020. Tekjuskattur var 5,9m USD á fjórða ársfjórðungi og 16,3m USD á árinu 2021.

            Hagnaður fjórða ársfjórðungs 2021 nam 17,4m USD og 87,4m USD á árinu 2021 samanborið við hagnað upp á 13,8m USD á fjórða ársfjórðungi 2020 og 39,3m USD á árinu 2020.

Efnahagur

Heildareignir námu 634,2m USD í lok árs 2021. Þar af voru fastafjármunir 472,4m USD og veltufjármunir 161,7m USD.

Aukning á veltufjármunum á árinu 2021 skýrist helst með auknum birgðum og kröfum upp á 16,2m USD en á móti hefur handbært fé lækkað sem nemur 10,0m USD. Aukning fastafjármuna stafa að stærstum hluta vegna kaupa á öllu hlutafé í Bergi ehf. og þá hefur nýr Börkur verið eignfærður á meðal varanlegra rekstrarfjármuna. Þá var SVN eignafélag, sem heldur utan um eignarhald í hlutabréfunum í Sjóvá, fært út úr hlutdeildarfélögum þar sem það félag hefur verið afhent hluthöfum.

 Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 422,5m USD. Eiginfjárhlutfall var 67% í lok árs 2021 samanborið við 68% í lok árs 2020.

Heildarskuldir og skuldbindingar félagsins voru 211,6m USD í lok árs og hækkuðu um 27,8m USD á milli áranna. Vaxtaberandi skuldir voru 123,2m USD í lok árs og hækkuðu um 7,3m USD frá síðasta ári.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 62,5m USD í lok árs 2021 en var 63,3m USD í lok árs 2020. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 88,9m USD á árinu 2021. Skýrast þær helst af kaupunum á Bergi ehf. og smíði á nýjum Berki. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 16,4m USD og handbært fé í lok árs nam 79,8m USD.

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á árinu 2021

Séu niðurstöður rekstrarreiknings ársins 2021 reiknaðar í íslenskum krónum á meðalgengi ársins (1 USD=127,05 kr) voru rekstrartekjur 30,1 milljarðar, EBITDA 10,7 milljarðar og hagnaður 11,1 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskum krónum á gengi 31. desember 2021 (1 USD=130,38 kr) voru eignir samtals 82,7 milljarðar, skuldir 27,6 milljarðar og eigið fé 55,1 milljarðar.

Samþykkt ársuppgjörs

Ársuppgjör 2021 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar 10. mars 2022. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).

Arður

Stjórn Síldarvinnslunnar hf. leggur til við aðalfund að greiddur verði arður til hluthafa vegna reikningsársins 2021 samkvæmt arðgreiðslustefnu félagsins. Arðgreiðsla til hluthafa nemi 30% hagnaðar ársins eða 3.417 millj. króna (um 26,2 millj. USD miðað við lokagengi ársins 2021). Arðgreiðslan nemur 2,01 kr. á hlut.

Deila: