Skipin streyma til Neskaupstaðar – hrognavinnsla gengur vel

Deila:

Nú streyma loðnuskip til Neskaupstaðar en slæmt veður er á loðnumiðunum og varla veiðiveður fyrr en á föstudag eða laugardag. Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að menn séu orðnir langþreyttir á veðurfarinu. „Það er nánast aldrei friður. Endalausar brælur og virðist ekki vera neitt lát á þeim. Þetta ætlar bara ekki að taka enda,“ segir Hálfdan.

Skipin sem eru komin eða eru á leiðinni austur eru með misjafnlega mikinn afla og stefnt er að því að vinna hrogn úr eins miklu af aflanum og mögulegt er. Grænlenska skipið Polar Amaroq landaði í hrognavinnslu í gær og í gærkvöldi var Polar Ammassak komið til löndunar með fullfermi eða 2200 tonn. Á eftir Polar Ammassak mun Vilhelm Þorsteinsson EA landa 1340 tonnum og í kjölfar hans Beitir NK 880 tonnum, Hákon EA 400 tonnum, Bjarni Ólafsson AK 500 tonnum og Barði NK 500 tonnum.

Vinnsla hrogna með nýjum búnaði gengur afar vel og upplýsir Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri að allur búnaður virki fullkomlega.

Það er ekki oft sem gott veður hefur verið á loðnumiðunum á yfirstandandi vertíð. Ljósm. Hreinn Sigurðsson

Deila: