Hefur áhyggjur af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja

Deila:

„Það er hins vegar ljóst að fullkominn friður hefur ekki ríkt um greinina á Íslandi. Það er sjálfstætt vandamál,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins meðal annars um sjávarútveg í landinu. „Ofurhagnaður einstakra fyrirtækja og sífellt aukin ítök sjávarútvegsfyrirtækja í öðrum greinum er eitthvað sem við í Framsókn höfum haft áhyggjur af.“

Sigurður Ingi lýsti mikilvægi þess að þjóðareign auðlinda verði skýrð í stjórnarskrá Íslands og sagði miður að stjórnmálaflokkarnir hefðu ekki náð saman um slíka breytingu. „Við munum líka leggja mikla áherslu á að ná sátt um þau gjöld sem sjávarútvegurinn greiðir, ná sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja, samhliða verulega aukinni arðsemi greinarinnar næstu 10 ár, renni til þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar.“

Sigurður Ingi sagði ævintýri líkast að fylgjast með uppbyggingu í fiskeldi en bætti við: „Hins vegar höfum við í Framsókn orðað áhyggjur okkar af því hvað eignarhald í fiskeldi er á fárra höndum. Það getur ekki gengið til lengdar að stór hluti fiskeldis við Íslands strendur sé í eigu fárra erlendra aðila. Við þurfum að stíga örugg skref í átt til þess að tryggja dreift íslenskt eignarhald í þessari ört vaxandi grein.“
Frétt af ruv.is

Deila: