Aðalfundur Brims haldinn í dag

Deila:

Aðalfundur Brims hf. verður haldinn fimmtudaginn 24. mars 2022 með rafrænum hætti auk þess sem hluthöfum gefst kostur á að mæta til fundarins en fundurinn fer fram í matsal félagsins að Norðurgarði 1, 101 Reykjavík klukkan 17:00. Fundurinn fer fram á íslensku.

Atkvæðagreiðsla á fundinum mun alfarið fara fram í gegnum Lumi AGM. Allir hluthafar, hvort sem þeir mæta til fundarins í Norðurgarð eða taka þátt með rafrænum hætti, eru hvattir til að hlaða niður smáforriti Lumi AGM í eigin snjalltæki, en jafnframt geta þeir greitt atkvæði í gegnum vefslóð Lumi AGM.

Hluthöfum  stendur jafnframt  til boða að kjósa um dagskrármál með skriflegum hætti eða veita umboð. Á vefsíðu félagsins má finna viðeigandi eyðublöð.  Eigi síðar en einum degi fyrir aðalfund þarf beiðni hluthafa um að kjósa með skriflegum hætti að berast félaginu.

Hluthafar eða umboðsmenn hluthafa sem hafa hug á því að sækja fundinn, hvort sem er rafrænt eða á staðnum, eru beðnir um að skrá tímanlega sig á vefsíðunni www.lumiconnect.com/meeting/brim eigi síðar en kl. 17.00 þann 23. mars, eða degi fyrir fundardag. Með innskráningu þarf að fylgja mynd af skilríkjum og umboð, ef við á.

„Samkvæmt stefnu félagsins sem kynnt var í skráningarlýsingu félagsins árið 2014 leggur stjórn félagsins til að arðgreiðsla á árinu 2022 vegna rekstrarársins 2021 verði 2,1 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 4.034 millj. kr. (um 27,3 millj. evra á lokagengi ársins 2021), eða 2,7% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2021. Arðurinn verði greiddur 29. apríl 2022. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 24. mars 2022 og arðleysisdagur því 25. mars 2022. Arðsréttindadagur er 28. mars 2022. Arður greiðist þeim sem skráðir eru í hlutaskrá félagsins í lok arðsréttindadags.“

Deila: