Nýta hliðarvind til raforkuframleiðslu

Deila:

Fyrirtækið Sidewind hefur undanfarin þrjú ár unnið að þróun vindtúrbína sem koma á fyrir í opnum gámum á flutningaskipum til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í flutningum og minnka útblástur frá skipum. Eftir ár af vinnu við hönnum og smíði er frumgerðin nú tilbúin. Hún verður prófuð hjá Samskipum á næstu mánuðum. Frá þessu er greint á ruv.is

Sparar eldsneyti og nýtir rafmagn sem annars færi til spillis

Sidewind er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem vinnur að þróun umhverfisvænna lausna fyrir flutningaskip. Fyrirtækið stefnir að framleiðslu vindtúrbína sem komið er fyrir í opnum fjörutíu fermetra gámum. Vindmyllu gámarnir nýta hliðarvind sem annars færi til spillis við framleiðslu rafmagns. Hægt er að raða mörgum myllum á hvert skip, eftir vindstyrk.

Með notkun tækninnar eru líkur á að draga megi umtalsvert úr notkun jarðefnaeldsneytis í flutningum og þá um leið útblæstri frá flutningaskipunum. Sidewind telur að með þessari aðferð megi framleiða fimm til þrjátíu prósent af orkuþörf skipa. 

„Ferlíkið verður flutt í dag“

Sidewind byggir á hugmynd Óskars Svavarssonar, sem er einnig einn af stofnendum fyrirtækisins. Hugmyndin var tilnefnd til nýsköpunarverðlauna Samorku árið í fyrra. 

Óskar segir að frumgerðin sé nú tilbúin. Hún var smíðuð hjá Geislatækni í Reykjavík og verður flutt til Samskipa síðar í dag. „Ferlíkið verður flutt í dag. Þetta hefur verið um þriggja ára ferli við að þróa hugmyndina en smíðin og hönnunin hefur tekið eitt ár, verkefnið í heild um þrjú.“

Frumgerð hefur þegar verið prófuð í vindgöngum í Háskólanum í Reykjavík og um borð í Helgafelli. Óskar segir að þær mælingar lofi góðu. Nú taki við prófanir og mælingar á gámaflutningasvæði Samskipa og síðar verður myllan sett á flutningaskip og prófuð í alvöru skilyrðum.

Evrópa áhugasöm

Hann segir að mikill áhugi sé á hugmyndinni og verkefninu í Evrópu. „Við erum í umsóknarferli hjá Evrópusambandinu og út um allt. Þetta er náttúrulega hlutur sem hefur aldrei verið prófaður og gerður áður, að nýta þessa vinda uppiá skipunum, það er mikil spenna fyrir þessu.“

Deila: