Slökkviliðið veður gervireyk í verbúðinni

Deila:

Húsnæði verbúðarinnar sálugu í Vinnslustöðinni gegnir göfugu hlutverki æfingavettvangs slökkviliðs og lögreglu í Vestmannaeyjum og skilar því svona líka ljómandi vel. Fólk á ferð um hafnarsvæðið kann að verða vart við umferð lögreglu- eða slökkviliðsmanna við gamla innganginn í VSV og heldur að eitthvað dramatískt sé að gerast. Skýringin er nú ekki dramatískari en svo að þar eru menn á leið á æfingu eða af æfingu til að verða enn klárari en ella í hvers kyns viðfangsefni í þágu samborgara sinna. Frá þessu er greint á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

„Við áttuðuðum okkur ekki á því fyrr en á árinu 2019 þvílíkt draumadæmi verbúðin væri til æfinga og höfum æft þar nokkrum sinnum, mun sjaldnar reyndar en ef COVID-faraldurinn hefði ekki haft sín áhrif á starfsemi okkar líkt og allra annarra.

Hjá Vinnslustöðinni er komið á dagskrá á allra næstu misserum að rífa hús botnfiskvinnslunnar og verbúðina þar með og byggja nýtt. Ég sagði við Binna framkvæmdastjóra að slökkviliðinu væri skapi næst að semja við byggingarfulltrúa bæjarins um að veita ekki framkvæmdaleyfi fyrir nýja húsið, svo mjög munum við sjá eftir verbúðinni! Hún er hrein gullnáma fyrir okkur. Verst að mér hafi ekki dottið miklu fyrr í hug að fá hana til afnota,“ segir Friðrik Páll Arnfinnsson slökkviliðsstjóri.

Slökkviliðið æfir í verbúðinni kalda reykköfun, björgun fólks úr eldsvoða og allt sem því tilheyrir. Lagðar eru þrautabrautir með alls kyns fyrirstöðum og vandræðum, húsið fyllt af gervireyk og slökkviliðsmennirnir látnir glíma við að leysa þrautir í kófinu, þrautir sem oftar en ekki reynist enn snúnara að leysa í veruleikanum.

Kjöraðstæður líka fyrir lögregluna

„Verbúðin er alveg kjörið æfingahúsnæði fyrir okkur í lögreglunni og býður upp á alla möguleika til að setja upp raunhæf verkefni fyrir okkur, æfa viðbrögð og úrlausnir,“ segir Huginn Egilsson varðstjóri.

„Við æfðum þarna í fyrsta sinn núna í marsmánuði. Skipulögð eru verkefni sem líkjast sem mest þeim sem við gætum lent í að sinna, allt frá einföldum hávaðaútköllum til flókins heimilisofbeldis og mála þar sem vopn koma við sögu.

Við æfum okkur í því að fást við ofbeldismenn af einhverju tagi í íbúðum eða innanhúss yfirleitt, vopnaða eða óvopnaða. Aðstæður í verbúðinni bjóða til dæmis upp á æfingar í því hvernig tekið yrði á alvarlegum atburði í skólahúsnæði, svo sem árás eða gíslatöku.

Vissulega verðum við bæði að búa okkur undir atburði sem líklegt er að gerist og aðra sem hverfandi líkur eru á að gerist. Engar forskriftir eru til að því sem kann að bíða okkar í næsta útkalli.“

Körfubíllinn skiptir sköpum

Slökkvilið Vestmannaeyja hefur líka fengið að æfa sig um borð í Vinnslustöðvarskipinu Sighvati Bjarnasyni VE og í fleiri skipum í Vestmannaeyjahöfn, meðal annars í gamla Herjólfi. Þar kom körfubíll liðsins í góðar þarfir. Hann var keyptur notaður í Svíþjóð á árinu 2018.

„Körfubíll hefur verið á óskalistanum okkar í áratugi eða frá því fyrsta blokkin í Eyjum var reist við Hásteinsveg árið 1964.  Sú ósk rættist ekki fyrr en meira en hálfri öld síðar. Ég fann bílinn í Sundsvall, mjög vel með farinn og flottan. Það er verkefni út af fyrir að læra að nota búnaðinn og nýta alla möguleika sem bjóðast,“ segir slökkviliðsstjórinn.

„Einu sinni notuðum við körfubílinn á æfingu í verbúðinni og tengdum þá saman reykköfun og björgun manns út um glugga. Bíllinn er vissulega björgunartæki en hann hefur ekki síður það hlutverk að auka öryggi slökkviliðsmannanna sjálfra á vettvangi þegar þarf að fara inn um glugga á fjórðu eða fimmtu hæð, reykræsta eða rjúfa þak.“

Þriðja kynslóð slökkviliðsmanna í fjölskyldunni vex úr grasi

Friðrik Páll er eini slökkviliðsmaðurinn í fullu starfi, aðrir eru í hlutastarfi í liðinu, vinna hér og þar í bænum og bregðast við þegar kallið kemur. Í útkallshópnum öllum eru um 30 manns.

Eplið féll ekki langt frá ættareikinni því faðir slökkviliðsstjórans, Arnfinnur Friðriksson, var í mörg ár í slökkviliðinu en vék sæti þegar sonurinn knúði dyra!

„Eiga allir strákar sér ekki æskudraum um að verða slökkviliðsmenn? Mér fannst þetta alla vega afar spennandi og vildi komast í slökkviliðið en þá var ekki pláss fyrir mig. Pabbi samdi þá við slökkviliðsstjórann um að hætta en að ég kæmi í hans stað. Það gekk eftir og árið 1996 var ég kominn í slökkviliðið, þá 26 ára gamall. Starfið stóð undir öllum væntingum og meira til.

Í ársbyrjun 2016 tók ég við sem slökkviliðsstjóri. Ég setti mér það markmið í upphafi að áður en ég yrði fimmtugur 2020 yrði slökkviliðið komið í nýja slökkvistöð og ætti körfubíl.

Bíllinn kom í hús og gengið var frá samningum um nýja slökkvistöð fyrir fimmtugsafmælið. Stöðin er sem næst tilbúin og meira að segja komnir þar inn þrír bílar í viðbragðsstöðu: tankbíllinn, körfubíllinn og sjúkrabíll til vara. Slökkvistöðin verður tekin í gagnið nú á vordögum og formlega opnuð með pompi og prakt á goslokahátíð. Upphaflegt markmið stenst því alveg innan skekkjumarka.“

Slökkviliðsmaður af þriðju kynslóð fjölskyldunnar vex úr grasi, Friðrik Valur Friðriksson, 5 ára gamall. Sá heitir eftir foreldrum sínum, Ragnheiði Völu Arnardóttur og Friðriki Páli slökkviliðsstjóra. Friðrik Valur hefur óstjórnlegan áhuga á störfum slökkviliðsmanna, eins og sést á meðfylgjandi myndum úr verbúð Vinnslustöðvarinnar, og fylgist grannt með æfingum.

Hér á ekki endilega við að snemma beygist krókurinn,  heldur miklu frekar að snemma taki drengur sér hitamyndavél í hönd.

Æfing skapar fagmanninn

„Æfingar slökkviliðsmanna skipta öllu máli. Þannig stillum við saman strengi, lærum á tæki og tól og reynum að skapa erfiðar aðstæður til að glíma við. Sjálfur fór ég á námskeið í Reykjavík 2004 þar sem bandarískur leiðbeinandi lagði fyrir okkur þrautir í gömlu Áburðarverksmiðjunni. Þaðan tók ég með mér hugmyndir að verkefnum á æfingum sem við útfærum hér, meðal annars í verbúðinni. Það er svo ótrúlega þægilegt að geta æft þar án þess að skemma neitt. Ég vildi fá gat í vegg og þá brutum við það sjálfir og stækkuðum svo. Við brutum gler í glugga á æfingu og negldum bara fyrir á eftir, ekkert mál!

Sjúkrabíllinn í Eyjum er gerður út frá slökkvistöðinni en rekinn af sjúkrahúsinu. Sjúkraflutningamennirnir eru flestir í slökkviliðinu. Þetta fyrirkomulag var tekið upp 2011 og breytir miklu upp á samþættingu verka. Tveir menn úr liðinu eru á bakvakt allan sólarhringinn viku í senn til að sinna sjúkraútköllum. Það kemur sér oft vel að þeir þekki til verka slökkviliðs á slysstað þegar leiðir okkar og þeirra liggja saman. Við þekkjum þeirra hlutverk að öllu leyti og þeir okkar.

Sagt er að æfingin skapi meistarann. Í okkar hlutverki stuðla  æfingar í það minnsta að meiri fagmennsku og oft reynir á þessa þekkingu okkar og reynslu. Við höfum því miður fengið okkar skammt af stórbrunum og þá þurfum við á öllu að halda sem tiltækt er. Stærstur er Ísfélagsbruninn í desemberbyrjun árið 2000.

Hægt er öðrum þræði að líta á slökkviliðsæfingu sem leik. Sá leikur breytist hins vegar í blákalda alvöru þegar kallið kemur.“

  • Margir mætir karlar og konur komu til Vestmannaeyja á vertíð og bjuggu í verbúð Vinnslustöðvarinnar. Einn í þeim hópi er landsþekktur rokkhundur, sjálfur Bubbi Morthens. Þeir bræður, Tolli og Bubbi, voru meira að segja samtíða þar um hríð.
  • Í sögu Vinnslustöðvarinnar, Sjötug og síung, sem út kom 2016, er haft eftir Bubba: „„Fólkið í verbúðinni var merkilegur kokkteill af alls kyns týpum. Þarna var fólk sem lítið sem ekkert hafði lært til bókar, menntamenn sem bækur höfðu gleypt, sumir voru sýrubrenndir og með annarlegan þankagang. Þarna var fólk frá öðrum löndum, jafnvel fjarlægum heimsálfum. Við unnum eins og brjálæðingar, í akkorði í aðgerð eða uppskipun. Tekjurnar voru í samræmi við það. Uppgrip. Við blasti að þeir sem lifðu af vertíð í Vestmannaeyjum væru gjaldgengir í hvað sem væri, hvar sem væri. Ég lifði af fjórar vertíðir í Eyjum og vertíðir fyrir austan, vestan og á Seltjarnarnesi. Sú lífsreynsla gerði mig að því sem ég er. Ég fékk andlegt hreistur fyrir lífstíð.“
Deila: