Gjörið svo vel að ganga um borð!

Deila:

Uppsjávarveiðiskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, verður sýnt almenningi laugardaginn 9. apríl. Skipið kom fyrst til Akureyrar 2. apríl á síðasta ári en það var smíðað sérstaklega fyrir Samherja. Sökum heimsfaraldursins hefur ekki verið hægt að sýna skipið opinberlega.

Þar sem loðnuvertíð er nýafstaðin og skipið er í heimahöfn, þykir Samherja upplagt að halda upp á eins árs afmælið með því að bjóða almenningi um borð og skoða eitt glæsilegasta og fullkomnasta skip íslenska fiskveiðiflotans. Skipið verður opið almenningi frá klukkan 12:00 til 16:00. Fjallað er um skipið á heimasíðu Samherji.

Vilhelm Þorsteinsson EA við bryggju á Akureyri/mynd samherji.is

Mikil burðargeta

Karstensens skipasmíðastöðin í Danmörku hannaði og smíðaði skipið eftir þörfum Samherja og naut ráðgjafar starfsfólks Samherja við verkið.

Vilhelm Þorsteinsson er stórt, glæsilegt og fullkomið skip, 89 metrar á lengd og 16,6 metrar á breidd. Burðargetan er vel yfir þrjú þúsund tonn í þrettán lestartönkum þar sem aflinn er kældur niður til að sem ferskast hráefni komi að landi.

Skrifað undir á afmælisdegi tvíburanna Baldvins og Vilhelms

Samningar um smíðina voru undirritaðir 4. september 2018 en þann dag hefðu tvíburarnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinssynir orðið 90 ára. Nýsmíðin leysti af hólmi eldri Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins um síðustu aldamót.

Hlaðið nýjustu tækni

Eins og fyrr segir kom nýr Vilhelm Þorsteinsson EA 11 til Akureyrar 3. apríl á síðasta ári en deginum áður sigldi skipið inn Eyjafjörðinn. Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs sagði við það tækifæri allan aðbúnað sérlega góðan.

Brúin er rúmgóð og búin nýjustu tækjum/mynd ÞJ

Skipið er stórt og það er mjög vel útbúið. Um borð er öll sú nýjasta tækni sem er fáanleg við meðferð afla og besta gerð af veiðarfærum sem við þekkjum. Skip eins og þetta, sem er bæði með nót og troll, er með breytilega notkun á vélarafli tveggja véla. Á heimsiglingunni notuðum við aðeins aðra þeirra og við þær aðstæður eyðir skipið mun minna.“

Þriðja kynslóð uppsjávarskipa

Í skipinu eru klefar fyrir fimmrán manns auk sjúkraklefa. Þá er skipið einstaklega rúmgott og má þar nefna borðsal og tvær setustofur. Um borð er einnig líkamsræktaraðstaða og gufubað fyrir skipverja.

Borðsalurinn er vistlegur / mynd ÞJ

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja sigldi með skipinu heim til Akureyrar frá Danmörku.

„Þetta er þriðja kynslóð uppsjávarskipa sem við tökum þátt í að gera út. Skipið er afrakstur samstarfs starfsfólks Karstensens skipasmíðastöðvarinnar og Samherja og útkoman er mjög svo góð. Það var frábært að sigla með skipinu heim.“

Skipið opið almenningi

Eins og fyrr segir verður skipið opið almenningi laugardaginn 9. apríl, frá klukkan 12:00 til 16:00.

Skipið liggur við Oddeyrarbryggju á Akureyri.

Gjörið svo vel að ganga um borð !

Deila: