„Sjósmiður“ á veturna

Deila:

Maður vikunnar að þessu sinni er fæddur við Heklurætur, en hefur lengst af búið í Vestmannaeyjum. Hann hefur að mestu verið á sjó i hálfa öld og langar í frí til Asoraeyja.

Nafn:

Haraldur Sverrisson.

Hvaðan ertu?

Ég er fæddur og uppalinn í Selsundi á Rangárvöllum, við Heklurætur en hef búið í Vestmannaeyjum síðustu 47 ár og Eyjar eru fyrir löngu orðnar mitt “heima”.

Fjölskylduhagir?

Giftur Hugrúnu Magnúsdóttur, við eigum fjögur börn og tvö barnabörn.

Hvar starfar þú núna?

Er á handfæraveiðum á Steðja VE-24 á sumrin en er svokallaður “sjósmiður” á veturna.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Var á vertíð í Ísfélagi Vestmannaeyja 1971 og fór svo í fyrsta skipti á sjó á netavertíð frá Stokkseyri 1972 og að mestu verið á sjó síðan.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það skemmtilegasta er að vera í Fjallasjónum klukkan 3 að nóttu þegar sólin er að koma upp og fiskur á hverju járni!

En það erfiðasta?

Siglingarnar á Freyju RE-38 , sem var 100 tonna pungur, gátu verið sluggsamar í skammdegisbrælunum.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Það eru margir eftirminnilegir sem koma upp í hugann og þá á jákvæðan hátt. Einna minnisstæðastur er mér þó einn sem ég var samskipa aðeins einn túr. Ég held að það hafi verið 1975 sem að ég réði mig sem háseta á síðutogarann Víking AK-100 . Þetta var í desember og það átti að sigla með aflann á Þýskaland. Á þessum tíma hafði mín sjómennska einskorðast við netaveiðar , aldrei verið á trolli , hvað þá á síðutogara. Þarna voru síðutogararnir að kveðja og allir “alvöru”sjóarar komnir á skuttogara. Áhöfnin á Víkingi í þessum túr samanstóð því annarsvegar af nýliðum á borð við mig og hinsvegar af alvönum togarajöxlum sem ekki þóttu gjaldgengir á skuttogara vegna of náinna kynna við Bakkus. Enda var fyrsti sólarhringurinn þeim erfiður. En þegar menn voru búnir að jafna sig á landlegunni reyndust þetta dugnaðarforkar og góðir drengir. Einn var þó fremstur meðal jafningja en sá hét Sævar Geirdal ef ég man rétt. Hann reyndist mér og öðrum nýliðum einkar vel og einstakur félagi.

Hver eru áhugamál þín?

Áhugamálin voru svo mörg að ekkert náði fótfestu! Ætli mínir nánustu myndu ekki segja að sjórinn sé mitt áhugamál!

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Lítill matmaður, segjum vel kæstur hákarl.

Hvert færir þú í draumfríið?

Til Asoreyja.

Deila: