Ægir helgaður fiskvinnslunni

Deila:

Nýjasta tölublað Ægis er helgað fiskvinnslunni. Í blaðinu er fjallað um „fisk og franskar“, þjóðarétt Breta, góðan gang í niðursuðunni, gjöfula loðnuvertíð, þrátt fyrir að kvótinn hafi ekki náðst og mikla eftirspurn eftir nánast öllum afurðum. Gunnar Örlygsson, fiskverkandi og útflytjandi segir í Ægisviðtalinu að verða á hvítfiski sé í sögulegu hámarki. Auk þessa er að vanda að finna umfjöllun um margt annað, sem tengist sjávarútveginum.

„Það er engin skreytni að við höfum í sjávarauðlindum okkar aðgang að góðum fiski sem okkur ber að umgangast af virðingu og vandvirkni. Sjávarafurðaframleiðslan grundvallast á vöruvöndun frá fyrsta stigi til hins síðasta. Á þessari löngu leið er auðveldlega hægt að misstíga sig og þá verður útkoman alltaf verri vara. Hið gamalkunna á alltaf vel við að það taki ómældan tíma að byggja upp orðspor en örskotsstund að glata því. Þá hugsun þurfum við alltaf að hafa að leiðarljósi.
En þó hér sé sérstaklega nefnd framleiðsla á ferskum fiski þá erum við engu að síður með mjög öfluga framleiðslu á frosnum fiskafurðum, söltuðum afurðum, þurrkuðum, framleiðslu á lýsi, fiskimjöli og ýmsu öðru sem sjávarauðlindinni tengist. Framleiðsla fæðubótarefna og ýmissa hollustu- og lækningavara teljast líka til þess sem við í einu orði nefnum fiskvinnslu.
Eitt má þó heita öruggt. Við verðum aldrei búin að ná lokamarkmiðinu. Sem betur fer. Í síbreytilegum heimi með þróun í lifnaðarháttum og neyslumynstri fólks felast alltaf tækifæri fyrir okkur sem
framleiðsluþjóð fiskafurða að gera betur, þróa og bæta. Tækni dagsins í dag verður strax byrjuð að eldast á morgun. Einmitt þetta gerir greinina svo áhugaverða, lifandi og spennandi,“ segir Jóhann Ólafur Halldórsson, ritstjóri Ægis, meðal annars í leiðara blaðsins. .

Deila: