Allir að mokfiska

Deila:

Ísfisktogarinn Viðey RE hefur verið að veiðum á Eldeyjarboða síðustu dagana. Þar eru margir togarar að veiðum og allir eru að mokfiska enda er vetrarvertíð nú í hámarki að sögn skipstjórans, Jóhannesar Ellerts Eiríkssonar (Ella).

Elli segir að aflinn sé aðallega þorskur og ufsi en einnig gullkarfi.

,,Þorskurinn er fjögur til fimm kíló að þyngd eða sannkallaður vertíðarþorskur. Ufsinn var mjög stór til að byrja með eða fjögurra til sex kílóa fiskur. Hann hefur farið smækkandi að undanförnu og ég veit ekki hvort við veiðum meira af ufsa í síðari hluta veiðiferðarinnar. Það er búið að minnka ufsaskammtinn og það jafngildir því að við reynum að veiða aðeins vænan fisk,” segir Elli í samtali á heimasíðu Brims.

Gæðamálin eru áhöfninni á Viðey hugleikin og til marks um það nefnir Elli að undir eins sé híft ef vísbendingar séu um að tíu tonn af fiski séu komin í trollið.

,,Það er mjög þægilegt ef magnið er ekki meira en átta tonn en flest holin eru á bilinu sex til tíu tonn.”

Deila: