Tvö skip með rúmlega 20.000 tonna kolmunnakvóta

Deila:

Veiðar á kolmunna munu hefjast á næstu dögum.  Kolmunninn heldur sig enn sunnarlega, sunnan lögsögu Færeyja svo það er langt að sækja hann. Nokkur færeysk skip hafa verið að reyna fyrir sér, en veiðin hefur verið lítil. Kolmunninn gengur svo norður eftir í ætisleit eftir hrygningu þegar líður á vorið. Leyfilegur heildarafi nú er 174.557 tonn, en var í fyrra 202.121. Aflinn í fyrra varð 186.352 tonn og því flutt um 15.700 tonn yfir á þetta ár.

Aflahæsta skipið í fyrra var Hoffell SU með 24.194 tonn eftir yfirfærslu á 15.000 tonnum á það  og næsta skip var Beitir NK með 21.949 tonn.

Nú eru 18 skip með raunverulega úthlutun, sem er sami fjöldi og landaði afla í fyrra. Tvö skip eru með úthlutaðar aflaheimildir yfir 20.000 tonn.. Það eru Víkingur AK með 20.782 tonn og Börkur NK með 20.036 tonn. Annars er úthlutunin þannig: Beitir NK með 18.959 tonn, Venus NS með 17.663 tonn, Jón Kjartansson SU með 16.214 tonn, Aðalsteinn Jónsson SU með 15.985 tonn, Vilhelm Þorsteinsson EA með 14.879 tonn, Bjarni Ólafsson AK með 7.927 tonn, Sigurður VE með 7.301 tonn, Hákon EA með 7.288 tonn, Huginn VE með 6.580 tonn, Heimaey VE með 4.869 tonn, Ljósafell SU með 4.000 tonn, Hoffell SU með 3.264 tonn, Kap VE með 2.963 tonn, Ísleifur VE með 2.557 tonn, Gullver með 2.418 tonn. Jóna Eðvalds SF er með 809 tonn, Ásgrímur Halldórsson SU með 53 tonn og Sólberg ÓF með 10 tonn.

Deila: