Landeldi ekki arðbært?

Deila:

Í matsáætlun Hábrúnar ehf í Hnífsdal fyrir 11.500 tonn eldi á regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi er gerð grein fyrir öðrum kostum en sjókvíaeldi. Þar er vísað til fullyrðinga um að eldi á landi eða eldi í lokuðum kvíum eða séu raunhæfir kostir sem leyst gætu hefðbundið sjókvíaeldi af hólmi. „Þær fullyrðingar fá sífellt aukið vægi í almennri umræðu en forsendur á þar á bakvið eru hæpnar“ segir í matsáætluninni.

Bent er á að ef öll fyrirhuguð framleiðsluaukning Hábrúnar (11.500 tonn) yrði á landi þyrfti um 23-35 hektara lands, 12.000 l af köldu vatni á sekúndu og um 600 lítra á sekúndu af heitu vatni.

43% hærri framleiðslukostnaður við landeldi

Þá er nýfjárfesting vegna landeldisstöðvar talin vera um tuttuguföld á við hefðbundna sjókvíaeldisstöð og rekstrarkostnaður á hvert framleitt tonn er meiri í landeldi en sjókvíaeldi (Arnar Freyr Jónsson 2018).
Í nýrri norskri skýrslu (Bjørndal et al. 2018) er talið að hver 10.000 tonna eining á landi muni þurfa 9 hektara en vegna reglna um smitvarnir milli fiskeldisstöðva muni það í raun þýða 32,6 km2 strandsvæðis. Þá er bent á að framleiðslukostnaður við landeldi er mun hærri eða 43,6 NOK/kíló fisks á móti 30,6 NOK/kíló fisks í sjókvíaeldi.

Auk þess er kolefnisspor landeldis (5,1 kg CO2e/kg fisks) 28% hærra en í sjókvíaeldi (4.0 kg CO2e/kg fisks ) en munurinn er sennilega meiri þar sem miðað er við tölur frá 2012 vað varðar kolefnisspor sjókvíaeldis.

Í matsáætluninni segir eftirfarandi að lokum um eldi á landi:

„Þá má benda á að lítið er af undirlendi á Vestfjörðum og ljóst að ekki væri hægt að urða þann lífræna úrgang sem kemur frá slíku eldi á svæðinu. Það er mat Hábrúnar að landeldi á Vestfjörðum yrði ekki arðbært við núverandi aðstæður. Í ljósi ofangreinds verður ekki horft til þess að framleiðsluaukning verði á landi.“
Frétt og mynn af bb.is

Deila: