„Menn eru kátir hér um borð“

Deila:

Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar, skipstjóra á Beiti NK, í morgun og spurði frétta af kolmunnaveiðinni á gráa svæðinu.

„Héðan er allt gott að frétta. Hér er fínasta veiði. Við erum núna komnir með yfir 2.000 tonn í fjórum holum og erum nú á okkar fimmta holi í túrnum. Síðasti sólarhringur var mjög góður en þá fengum við hátt í 1.800 tonn í þremur holum. Í fyrrinótt fengum við 620 tonn, um 600 tonn um hádegi í gær og 540 tonn í nótt. Þetta voru allt stutt hol eða frá sex og upp í níu tíma. Stundum er dregið mun lengur eða allt upp í 16 tíma. Þetta er fínasti fiskur sem fæst hérna, þessi dæmigerði göngufiskur. Við erum núna við svonefndan Wyville Thompson-hrygg og hér eru flestir bátarnir en svo eru einnig bátar norðar. Það verður að segjast að þetta lítur býsna vel út núna og menn eru kátir hér um borð,“ segir Tómas.

Börkur NK er einnig á miðunum og er að fiska vel. Hákon EA kom til Neskaupstaðar sl. nótt og er að landa. Vilhelm Þorsteinsson EA er á leið til Neskaupstaðar með fullfermi. Bjarni Ólafsson AK landaði í Neskaupstað í gær og er á leiðinni á miðin. Það er semsagt mikið um að vera.
Beitir NK með 600 tonna hol um hádegið í gær. Ljósm. Hreinn Sigurðsson

Deila: