Þorskurinn að skila sér úr lögsögu Grænlands
Frystitogarinn Vigri RE kom til hafnar í Reykjavík í síðustu viku. Að sögn skipstjórans, Árna Gunnólfssonar, var aflinn í veiðiferðinni 970 tonn af fiski upp úr sjó og er aflaverðmætið áætlað rúmar 415 milljónir króna. Árni segir að afbragðsgóð áhöfn og góðir stjórnendur í landi eigi stærstan heiður skilið fyrir árangurinn.
,,Fyrir túrinn var okkur uppálagt að einbeita okkur að ufsanum og ég vona að það hafi tekist því við vorum með rúmlega 300 tonn af ufsa í túrnum. Sóknin í ufsann hefur aukist mikið hjá togurunum en veiðinni er náttúrlega stjórnað með heildarkvóta,” segir Árni í samtali á heimasíður Brims. Hann segist hafa byrjað veiðar á Tánni suður af Grindavík. Þaðan var farið á Eldeyjarbankann en Vigri var mest að veiðum þar og í næsta nágrenni.
Að sögn Árna var aðeins farið í Skerjadjúpið í leit að djúpkarfa en mestur djúpkarfaaflinn fékkst hins vegar á Matthildi, sem er út af Belgableyðunni, Litlabanka og Pínulitlabanka. Þegar það gerði austanbrælu brá Árni á það ráð að fara vestur fyrir land.
,,Við hófum veiðar fyrir vestan á Víkurálshorninu. Þar var mjög góð veiði. Auðvitað eru ýsa og gullkarfi um allan sjó en það er einnig mjög mikið af þorski en þessar tegundir eru á mikilli uppleið á Íslandsmiðum. Í þessari veiðiferð litum við á þær sem aukaafla,” segir Árni en hann upplýsir að allur þorskurinn sé mjög góður, fjögur til sex kíló að jafnaði á þyngd.
,,Það munar verulega um þorskinn sem er að skila sér eftir að hafa verið í grænlenskri lögsögu. Þetta er mjög vænn og vel haldinn fiskur.”
Vigri fór næst í kantinn vestur af Vestfjörðum og þar var mjög góð veiði. Reyndar var mokveiði þegar Vigri hélt heim á leið og Árni segir að menn hafi leikið sér að því að fá tíu tonn af fiski í holi eftir tiltölulega skamman togtíma.
,,Uppistaðan í aflanum hjá okkur í kantinum var ufsi. Við reyndum einnig við grálúðu. Byrjuðum á Hampiðjutorginu en best var veiðin miklu norðar eða í svokölluðum Kartöflugarði. Hann er vestur af Halamiðum,” segir Árni Gunnólfsson.