Íslenska sjávarútvegssýningin haldin í Kópavogi í júní

Deila:

Íslenska sjávarútvegssýningin „Icefish 2022“ verður haldin 8-10 júní í Kópavogi. „Sýningin er viðburður sem allir sem tengjast sjávarútvegi verða að mæta á, þar sem helstu nýjungar í greininni eru sýndar og helsta nýsköpun í vörum og þjónustu. Icefish spannar allar hliðar sjávarútvegsins,“ segir í frétt frá sýningarstjórn.

„Nú þegar er búið að bóka 90% af sýningarrýminu og ekkert að vanbúnaði að bjóða velkomin fyrirtæki sem hafa langa og góða reynslu af því að sýna á Icefish, en einnig fjölmarga nýja sýnendur, bæði íslenska og erlenda,“ segir þar ennfremur.

Stórir sýningarskálar verða frá Danmörku, Noregi og Færeyjum, en einnig í fyrsta skipti frá Spáni.

„Icefish 2022 býður upp á óviðjafnanlegan vettvang í síbreytilegum heimi. Icefish er í forystuhlutverki í hópi sjávarútvegssýninga á norðurslóðum, og hefur margsannað gildi sitt sem frábær vettvangur til að sýna styrkleika og nýsköpun í sjávarútvegi. Ég hlakka ákaflega til að sjá þessa glæsilegu sýningu snúa aftur í júní,” segir Marianne Rasmussen-Coulling, viðburðastjóri hjá Mercator Media og framkvæmdastjóri Íslensku sjávarútvegssýningarinnar.

Á sýningunni í júní verða fjölmargar nýjungar, þar á meðal

  • Icefish Connect – sýning í sýndarveruleika og vefráðstefna sem veitir fyrirtækjum kost á að ná langt út fyrir veggi sýningarsvæðisins.
     
  • Fyrirtækjastefnumót – í kjölfarið á ákaflega vel heppnuðum 90 fundum á milli fulltrúa frá 24 löndum á sýningunni árið 2017 verða stefnumótin á sínum stað.
     
  • Fjórða Fishwaste for Profit-ráðstefnan, haldin á 2. og 3. degi sýningarinnar. Íslendingar eru frumkvöðlar í hagnýtingu fiskúrgangs til verðmætasköpunar. Ráðstefnan verður haldin samhliða nýju sýningarsvæði sem helgað er vinnslu, virðisauka, fiskeldi og hliðarafurðum.
     
  • Verðlaun Íslensku sjávarútvegssýningarinnar verða afhent í 8. skipti í júní. Verðlaunaafhendingin er haldin opnunarkvöld sýningarinnar, en verðlaunin heiðra þá sem skara framúr í íslenskum og alþjóðlegum sjávarútvegi, vinnslu, veiðum, nýsköpun og sjávarréttum.
     
  • Stöðugar fréttir frá samstarfsfjölmiðlum sýningarinnar,  World Fishing and Aquaculture og Fiskifréttum.
     
  • Námsstyrkir Íslensku sjávarútvegssýningarinnar – námsstyrkir að upphæð tvær milljónir króna verða veittir til að styrja efnilega nemendur til náms í Fisktækniskólanum í Grindavík. Í valnefndinni eru fulltrúar frá Íslensku sjávarútvegssýningunni, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Fisktækniskóla Íslands, Marel og Landssambandi smábátaeigenda.
Deila: