Fiskistofa metur brottkast allnokkurt

Deila:

Fiskistofa metur, eftir fyrsta ár í drónaeftirliti, að umfang ólöglegs brottkast við Íslandsmið sé allnokkurt og mun meira en áður hefur verið talið. Hins vegar þurfi að vinna betur úr þeim gögnum sem safnast hafa og endurbæta skráningar til að auðvelda tölfræðigreiningar til að geta metið umfangið nákvæmar. Sú vinna stendur nú yfir.

Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra við fyrirspurn Ingu Sæland, flokki fólksins, sem var svo hljóðandi:

Hvað áætlar Fiskistofa að sé umfang ólöglegs brottkasts við Íslandsmið á ári hverju? Hefur drónaeftirlit Fiskistofu leitt til endurskoðunar á því mati?
    Ráðuneytið leitaði til Fiskistofu varðandi svar við þessum lið fyrirspurnarinnar. Í svari Fiskistofu kemur eftirfarandi fram:
    „Í upphafi árs 2021 hóf Fiskistofa eftirlit með brottkasti með drónum. Fram að þeim tíma voru brottkastsmál alla jafna innan við 10 ár ári, eins og sjá má í ársskýrslum Fiskistofu, og brottkast því metið óverulegt. T.d. var einungis eitt brottkastsmál sem uppgötvaðist við eftirlit Fiskistofu á tímabilinu 1. september 2020 fram í miðjan janúar 2021 er drónaeftirlit hófst. Á árinu 2021 voru brottkastsmálin hins vegar um 140 og nánast öll þeirra uppgötvuðust við drónaeftirlit. Brottkast hefur sést hjá um 40% allra báta sem flogið hefur verið yfir á dróna. Er það óháð tegund veiðafæra en þess ber að geta að lítill hluti fluga hefur verið frá varðskipi þar sem fylgst er með stærri bátum fjarri landi. Verið er að leita tölfræðilegra aðferða til að magnmeta brottkast út frá þeim gögnum sem safnað hefur verið við drónaeftirlit Fiskistofu. En brottkast hefur mælst allt upp í 27% af heildarafla eins báts í stakri veiðiferð.
    Fiskistofa metur, eftir þetta fyrsta ár í drónaeftirliti, að umfang ólöglegs brottkast við Íslandsmið sé allnokkurt og mun meira en áður hefur verið talið. Hins vegar þarf að vinna betur úr þeim gögnum sem safnast hafa og endurbæta skráningar til að auðvelda tölfræðigreiningar til að geta metið umfangið nákvæmar. Sú vinna stendur nú yfir.“

Inga Sæland spurði ennfremur:  Rannsakar Fiskistofa útbúnað skipa til að athuga hvort skipin séu með búnað sem megi nýta til að fela ummerki brottkasts?
    Þar sem Fiskistofa fer með framkvæmd þess eftirlits sem spurningin varðar þá leitaði ráðuneytið svara hjá stofnuninni. Í svari Fiskistofu segir:
    „Eftirlitsmenn hafa augun opin í eftirliti sínu fyrir búnaði sem nýta megi til að fela ummerki brottkasts. Fiskistofa hefur hins vegar ekki heimildir til að banna slíkan búnað eða t.d. opna brunna sem vart verður við. En eftirlitsmenn benda á slíkan búnað eða opna brunna í eftirliti og óska eftir úrbótum ásamt því að Fiskistofa sendir leiðbeiningarbréf þar sem bann við brottkasti er áréttað og óskað eftir að brunnum verði lokað eða búnaður fjarlægður. Lengra ná heimildir Fiskistofu ekki.
    Einnig hefur sést við drónaeftirliti búnaður s.s. rennur o.fl. til að auðvelda brottkast og hefur sá búnaður sést í notkun. En það sama á við og áður, Fiskistofa getur sent leiðbeiningabréf og óskað eftir að búnaður verði fjarlægður.“

Deila: