Met í pöntunum og stefnumarkandi yfirtaka

Deila:

Rekstur Marel á fyrsta fjórðungi þessa árs gekk mjög vel. Met var sett í pöntunum og tvo ný fyrirtæki hafa verið keypt. Tekjur í fjórðungnum voru 372 milljónir evra, á svipuðu róli og á fjórða fjórðungi en hækkuðu um 11% á milli ára.

Marel kaupir Wenger

Marel hefur undirritað samning um kaup á Wenger, líkt og tilkynnt var um þann 27. apríl 2022. Kaupin eru háð hefðbundnum fyrirvörum, þ.m.t. fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og hluthafa Wenger. Höfuðstöðvar Wenger eru í Bandaríkjunum og er félagið leiðandi á heimsvísu í framleiðslu á hátæknilausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein (e. plant-based protein) og fóður fyrir fiskeldi. Starfsmenn félagsins eru um 500 talsins og áætlaður árstekjur fyrir 2022 nema 190 milljónum bandaríkjadala. Heildarkaupverð er 540 milljónir bandaríkjadala. Kaupin á Wenger eru mikilvægt skref inn á nýja og spennandi vaxtarmarkaði og mynda fjórðu tekjustoð félagsins, til viðbótar við alifugla-, kjöt- og fiskiðnaði. Pro-forma skuldahlutfall eftir kaupin er áætlað um 3x nettó skuldir/EBITDA. 

Marel kaupir Sleegers Technique

Marel hefur lokið kaupum á hollenska hátæknifyrirtækinu Sleegers Technique eins og tilkynnt var um þann 22. apríl 2022. Árstekjur Sleegers nema um 5 milljónum evra og eru starfsmenn fyrirtækisins 27 talsins. Kaupin samræmast vel markmiðum Marel að bjóða upp á heildarlausnir og þjónustu fyrir matvælaframleiðendur. Lausnir Sleegers felast meðal annars í frekari matvælavinnslu á borð við milliblöðun, stöflun, röðun og skurðtækni. Kaupin eru mikilvægt og stefnumarkandi skref í vöruframboði fyrir afurðir úr plöntu- eða dýrapróteinum sem tilbúnar eru til eldunar eða neyslu.

„Við skilum enn einum metfjórðungi með 422 milljónir evra í mótteknum pöntunum. Framsæknar lausnir og ákvörðun okkar um að styrkja sölu- og þjónustunet enn frekar til að mæta væntum vexti er greinilega að bera ávöxt og hefur styrkt markaðsstöðu okkar og tekjuvöxt framundan. Á sama tíma er sölu- og markaðskostnaður hár sem hlutfall af tekjum til skemmri tíma,“ segirÁrni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel um afkomuna.

Hann segir svo ennfremur:

„Það er áhugavert að sjá hve mikið eftirspurn í alifugla- og fiskiðnaði er að vaxa. Á tímum verðhækkana, njóta þessir iðnaðir þess forskots að þurfa minna fóður til að framleiða hvert kíló af próteini (e. feed conversion ratio). Við aukin ferðalög og opnun veitingastaða er klárt að sushi og annað fiskmeti er aftur á matseðlinum. Á fyrsta ársfjórðungi var umtalsverður vöxtur í pöntunum í fiskiðnaði, góður vöxtur í alifuglaiðnaði, meðan pantanir í kjötiðnaði voru stöðugar á milli fjórðunga.

Tekjur í fjórðungnum voru 372 milljónir evra, á svipuðu róli og á fjórða fjórðungi en hækkuðu um 11% á milli ára. Tekjumarkmið okkar voru hærri fyrir ársfjórðunginn, sem byrjaði hægt vegna fjarveru starfsfólks í allri virðiskeðjunni og tilheyrandi truflunum í aðfangakeðju, en tekjur fóru stighækkandi þegar leið á fjórðunginn. Rekstrarframlegð var lituð af þessu og stóð í 8,4% EBIT. Á sama tíma var sjóðstreymi sterkt. Við höfum gripið til aðgerða til úrbóta með breytingum á framkvæmdastjórn og áframhaldandi fjárfestingum í innviðum til að bæta flæði og rekstrarárangur. Við höfum beitt virkri verðstýringu með hækkun verðs síðustu tvo fjórðunga til að vega upp á móti hækkun kostnaðar í aðfangakeðjunni. Við gerum ráð fyrir að tekjur fari stighækkandi á árinu sem mun styðja við betri framlegð og arðsemi. Markmið okkar um 16% EBIT-framlegð í árslok 2023 standa óbreytt.

Það er með mikilli ánægju sem við tilkynnum um kaup á Wenger, sem er bandarískt fyrirtæki með 500 starfsmenn og ~190 milljónir dollara í árstekjur og góða arðsemi. Marel og Wenger deila þeim metnaði að umbylta matvælaframleiðslu á grundvelli nýsköpunar í nánu samstarfi við viðskiptavini. Kaupin munu mynda fjórðu stoðina í viðskiptamódeli okkar, til viðbótar við heildarlausnir okkar í alifugla-, kjöt- og fiskiðnuðum, og marka jafnframt ákveðið skref inn í plöntuprótein fyrir neytendamarkað, þar sem vöxtur markaðar er talinn geta numið 15-20% árlega. Neytendur vilja holla og fjölbreytta fæðu þar sem bæði dýra- og plöntuprótein eru í forgrunni. Wenger er enn fremur leiðandi á heimsvísu á sviði vinnslulausna á hinum ört vaxandi markaði matvæla fyrir gæludýr og hefur að auki sterka stöðu á sviði fóðurlausna í fiskeldi.

Á samþættum grunni (e. pro forma) telur nýja stoðin til 10% tekna og um 12% af heildar EBITDA-framlegð. Skuldahlutfall eftir kaupin verður nálægt 3.0x nettó skuldir/EBITDA. Sjóðstreymi er sterkt og fjárhagur traustur, og við munum áfram taka ákveðin skref við stefnumarkandi kaup sem styðja við metnaðarfull vaxtarmarkmið okkar fram til ársins 2026.“

Helstu niðurstöður aðalfundar Marel 2022 – Allar tillögur stjórnar til aðalfundar samþykktar

Aðalfundur Marel hf., sem haldinn var með rafrænum hætti þann 16. mars sl., samþykkti arðgreiðslu að fjárhæð 5,12 evru sent á hvern hlut fyrir rekstrarárið 2021. Heildararðgreiðsla nam um 38,7 milljónum evra, sem samsvarar um 40% af hagnaði ársins og er í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins og markmið um fjármagnsskipan.

Ársskýrsla Marel fyrir árið 2021, tillögur, annað efni og upptökur frá aðalfundi Marel 2022 eru aðgengilegar á vefsíðu fundarins: marel.com/agm.

Horfur

Markaðsaðstæður hafa verið krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum og fjarveru starfsmanna sem náði hámarki sínu í upphafi árs vegna heimsfaraldurs. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði. Áskoranir tengdar aðfangakeðju hafa leitt til óhagkvæmni í framleiðslu og hærri kostnaðar vegna afhendinga. Á árinu 2022, gerir Marel ráð fyrir auknum tekjum eftir því sem fram vindur sem og betri kostnaðarþekju á nýjum pöntunum.

Marel stendur við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma. Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði, fyrir árslok 2023.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Á undanförnum fimm árum hefur vöxtur markaða verið undir lengri tíma markaðsvexti. Gert er ráð fyrir að vöxtur á fimm ára tímabili (2021-2026) verði 6-8% í ljósi uppsafnaðrar fjárfestingarþarfar og hröðun eftirspurnar í kjölfar heimsfaraldurs.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.
  • Marel gerir ráð fyrir að stöðugar tekjur frá þjónustu, varahlutum og hugbúnaði muni nema um 50% af heildartekjum félagsins í árslok 2026.

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar í rekstrarfjármunum, að frátöldum nýsköpunarverkefnum, muni aukast í að meðaltali 4-5% af tekjum á tímabilinu 2021-2026, en fari svo aftur í eðlilegra horf.

Deila: