Látum árlega umtalsverðar þorskveiðiheimildir frá okkur án endurgjalds

Deila:

„Á heildina litið lætur Ísland árlega frá sér umtalsverðar aflaheimildir í botnfiski og loðnu til Færeyja í skiptum fyrir aðgang til veiða á eigin kvótum í kolmunna og norsk-íslenskri síld innan færeyskrar lögsögu. Því er ekki um það að ræða að íslensk skip fái beinar veiðiheimildir frá Færeyjum í skiptum fyrir þann fisk sem færeysk skip fá að veiða á Íslandsmiðum.“

Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra við fyrirspurn Ingu Sæland formanni flokks fólksins. Inga spurði um skipti á veiðiheimildum í þorski milli Íslands og Færeyja.

 Spurningin er svohljóðandi: „Hvaða veiðiheimildir fá íslensk skip í skiptum fyrir þau 2.320 tonn af þorski sem úthlutað er til erlendra þjóða til veiða á Íslandsmiðum?“ Svarið er eftirfarandi:
    „Samkvæmt núgildandi fiskveiðisamningi milli Íslands og Færeyja sem endurnýjaður er árlega mega færeysk skip árlega veiða 5.600 tonn af botnfiski við Ísland, þar af að hámarki 2.400 tonn af þorski og allt að 400 tonn af keilu. Þessar botnfiskheimildir Færeyinga til fiskveiða við Ísland má rekja aftur til samkomulags frá 20. mars 1976. Í kjölfar bankakreppunnar í Færeyjum í byrjun tíunda áratugarins var samkomulagið síðan víkkað út og því fá færeysk skip nú 5% hlutdeild af útgefnum heildarkvóta í loðnu, en þó ekki meiri en 30.000 tonn.
    Milli ríkjanna er samkomulag um gagnkvæman aðgang til að veiða á kolmunna og norskíslenskri síld úr eigin kvótum innan lögsögu hvors ríkis fyrir sig. Við veiðar á norsk-íslenskri síld innan færeyskrar lögsögu fá íslensk skip 1.300 tonn af makríl sem meðaflaheimild frá Færeyjum.
    Á heildina litið lætur Ísland árlega frá sér umtalsverðar aflaheimildir í botnfiski og loðnu til Færeyja í skiptum fyrir aðgang til veiða á eigin kvótum í kolmunna og norsk-íslenskri síld innan færeyskrar lögsögu. Því er ekki um það að ræða að íslensk skip fái beinar veiðiheimildir frá Færeyjum í skiptum fyrir þann fisk sem færeysk skip fá að veiða á Íslandsmiðum.“

     Inga spurði ennfremur hver þróun þorskveiðiheimilda erlendra ríkja í íslenskri fiskveiðilandhelgi hefði verið undanfarin 15 ár. Svarið við þeirri spurningu er eftirfarandi:
    „Engar breytingar hafa orðið á þróun þorskveiðiheimilda erlendra ríkja í íslenskri fiskveiðilandhelgi undanfarin 15 ár. Með vísan til svars hér að framan eru það eingöngu Færeyingar sem hafa heimildir til veiða á þorski innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.
    Á vefsíðu Fiskistofu eru aðgengilegar upplýsingar um veiðar erlendra ríkja í íslenskri fiskveiðilandhelgi. Annars vegar eru upplýsingar um afla erlendra skipa úr fjareftirliti Landhelgisgæslunnar fyrir tímabilið 2005–2014 og hins vegar skráningar afla erlendra skipa innan lögsögu í gagnagrunni Fiskistofu. Í töflu 4 er að finna samantekt á veiðum færeyskra, grænlenskra og norskra skipa.
    Afli í botnfiski annarra þjóða en Færeyinga á Íslandsmiðum er tilkominn vegna meðafla. Í framangreindum gögnum fyrir árið 2006 er jafnframt skráður afli á skipum frá Bretlandi og Þýskalandi sem er tilkominn vegna þágildandi tvíhliða samnings við Evrópusambandið um veiðar á 3.000 tonnum af karfa.“

Deila: