Tekið í blökkina

Deila:

Nokkrir eldri sæfarar koma reglulega saman í kaffi og rabb í Golfskála Garðabæjar. Þeir nefna félagsskapinn „Tekið í blökkina“ með tilvísun til þess að stofnendurnir áttu margir það sameiginlegt af hafa verið samtímis á síðutogaranum Aski. Þeir koma líka saman á dvalarheimil aldraðra sjómanna, Hrafnistu, þar sem þeir eru með merki félagsins.

Þeim er umhugað um varðveislu gamalla muna sem tengjast sjómennsku og vilja að hús gamla sjómannaskólans verði varðveitt og fái nýtt hlutverk, þegar námið verður flutt í nýtt húsnæði í Hafnarfirði.

Umræðuefnið yfir kaffibollunum er margvíslegt, en pólitíkin á ekki upp á pallborðið hjá þeim. Skemmtilegar sögur af sjónum eru í uppáhaldi og enginn skortur á slíkum frásögnum, enda eiga þeir flestir að baki meira en hálfrar aldar sjósókn. Þar er því hafsjór af fróðleik og skemmtilegum frásögnum að finna.

Hópinn á myndinni skipa þeir Ármann Árni Stefánsson, Ólafur F. Ólafsson og Þórhallur R. Valsson vinstramegin og Markús Alexandersson, Pétur Guðmundsson, Karel Ingvar Karelsson, Hjálmar Diego og Kristján Guðmundsson hægra megin.

Deila: