Flytur erindi um beitukóng

Deila:

Fimmtudaginn 5. maí kl. 12:30 verður málstofa Hafrannsóknastofnunar haldin í fundarsal á 1. hæð að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði.

Hildur Magnúsdóttir

Hildur Magnúsdóttir flytur erindið: The Variable Whelk: Studying the phenotypic and genotypic variation in the common whelk in Iceland and the North Atlantic.
Fyrirlesturinn verður á ensku.

Erindi verður streymt á YouTube rás Hafrannsóknastofnunar,
https://www.youtube.com/channel/UCirTCP_aKFKz8LMoFoxWGbA

Ágrip
Svæðisbundinn breytileiki sjávarkuðunga ber oft vitni um lítinn samgang milli stofna og getur endurspeglað þróun aðskilinna stofna eða ólík vaxtarskilyrði í mismunandi umhverfi. Beitukóngur (Buccinum undatum L.) er algengur sjávarsnigill í Norður-Atlantshafi sem er þekktur fyrir talsverðan svæðisbundinn breytileika í lífsöguþáttum sem og lögun og lit kuðunga. Tegundin er veidd til manneldis á mörgum strandsvæðum í Norður-Atlantshafinu og er viðkvæm fyrir svæðisbundinni ofveiði sem gerir rannsóknir á henni einkar mikilvægar. Að auki geta rannsóknir á samspili svipfarslegs- og erfðafræðileg breytileika aukið skilning okkar á hlutfallslegum áhrifum erfða og umhverfis á svipfar og hvernig þetta hefur áhrif á þróun svipgerða.

Í erindinu verður farið yfir rannsóknir á breytileika beitukóngs sem hafa verið stundaðar síðan hér við land síðan 2007 og eins hvað liggur fyrir í framtíðinni.

Um Hildi
Hildur Magnúsdóttir lauk BSc-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og hóf sama ár meistaranám í sjávarlíffræði í samstarfi við Vör – Sjávarrannsóknarsetur í Breiðafirði. Í meistaranáminu einbeitti hún sér að lífsöguþáttum og erfðabreytileika beitukóngs Buccinum undatum í Breiðafirði. Eftir útskrift 2010 sinnti hún á árunum 2011- 2014 rannsóknum hjá Vör og starfaði sem leikskólaleiðbeinandi meðfram því að skipuleggja frekari beitukóngsrannsóknir. Hún hóf síðan doktorsnám við Líf – og umhverfisvísindadeild HÍ árið 2014 í samstarfi við Háskólann á Hólum þar sem aðalviðfangsefni hennar var svipfars- og erfðabreytileiki beitukóngs í N-Atlantshafi. Eftir doktorsvörn haustið 2020 starfaði Hildur sem nýdoktor við HÍ við frekari svipfarsrannsóknir á beitukóngi og síðan á Keldum frá maí 2021 við sníkjudýrarannsóknir á rannsóknadeild fisksjúkdóma. Í janúar 2022 fékk hún nýdoktorsstyrk frá Rannís fyrir verkefnið ,,Þróun og vistfræðilegt samspil sjávarsnigla og sníkjudýra þeirra“ þar sem samþróun mismunandi Buccinoidea tegunda og ögðusníkjudýra þeirra verður rannsökuð í N-Atlantshafi og N-Kyrrahafi, og vinnur hún nú að því verkefni á Keldum.

Deila: