Kaldaskítur og bræla setur svip sinn á upphaf strandveiða

Deila:

Kaldi og bræla setti svip sinn á upphaf strandveiðar í gær. 409 bátar hafa skráð til veiðanna, en miklu færri fóru á sjó í gær vegna veðurs. Þar sem gaf á sjó fiskaðist nokkuð vel. Gísli Páll Guðjónsson á Valdísi ÍS var sáttur við daginn, en hann var á landleið síðdegis í gær með skammtinn sinn, en hann gerir nú út frá Arnarstapa. Í dag spáir brælu á flestum veiðisvæðum strandveiðibátanna.

Á tímabilinu maí, júní, júlí og ágúst í ár er heimilt að veiða á handfæri allt að 10.000 tonn af þorski, 1.000 tonn af ufsa og 100 tonn af gullkarfa eða samtals 11.100 lestir af óslægðum botnfiski á strandveiðum. Heimilt er, en ekki skylt, að landa ufsa án þess að sá afli teljist til hámarksafla í veiðiferðinni. Fiskistofa getur með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðvað strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðiskipa fari umfram það magn sem ráðstafað er til strandveiða.

Hverjum strandveiðibát er heimilt að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.

Fái fiskiskip leyfi til strandveiða, falla úr gildi önnur veiðileyfi sem skipið kann að hafa innan íslenskrar lögsögu. Þó getur fiskiskip ekki stundað strandveiðar ef flutt hefur verið meira aflamark, í þorskígildum talið, frá skipi en flutt hefur verið til þess.

Samkvæmt breytingu á lögum um veiðar í atvinnuskyni er nú heimilt að skila inn strandveiðileyfi innan strandveiðitímabilsins og fá almennt veiðileyfi sem nýtist það sem eftir stendur af fiskveiðiárinu. Sækja þarf um slíka breytingu til Fiskistofu fyrir 20. dag mánaðar og tekur þá breytingin gildi 1. dag næsta mánaðar.

Reglur um strandveiðarnar:

  • Einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip.
  • Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið. Þegar fiskiskip er í eigu lögaðila er fullnægjandi ef einn eigenda lögaðilans er lögskráður á skipið. Í umsókn lögaðila um leyfi til strandveiða skulu koma fram upplýsingar um eignarhald á lögaðilanum og þann/þá sem koma til með að vera lögskráðir á fiskiskip.
  • Leyfið er veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð, sam­kvæmt þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, og skal öllum afla fiskiskips landað í lönd­unar­höfn þess landsvæðis.
  • Ekki er heimilt að stunda veiðar á föstudögum, laugardögum og sunnudögum.
  • Ekki má veita fiskiskipi leyfi til strandveiða hafi aflamark, í þorskígildum talið, verið flutt af því umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári.
  • Veiðiferð má ekki standa lengur en í 14 klst. og eingöngu er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum degi.
  • Skipstjóri skal tilkynna um upphaf veiðiferðar til vaktstöðvar siglinga. Skylt er að vera með sjálfvirkan fjareftirlitsbúnað um borð.
  • Hámarksfjöldi handfærarúlla um borð eru 4 og ekki er heimilt að hafa önnur veiðarfæri um borð.
  • Eingöngu er heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð og skal öllum afla landað í lok veiðiferðar og hann vigtaður endanlega á Íslandi. Þorskígildi miðast við slægðan fisk.
  •  
Deila: