Vertíðin að fjara út

Deila:

Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum á mánudag og í gær landaði systurskipið Bergey einnig fullfermi. Skipstjórarnir segja að nú sé vertíðin að syngja sitt síðasta og fiskurinn að síga út af vertíðarmiðunum. Þetta eigi allavega við um þorskinn en hins vegar sé enn nóg af ýsu til staðar.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey segir að þetta sé búin að vera stutt en hörkugóð vertíð. „Vertíðin hófst seint. Fiskurinn kom seint á vertíðarmiðin. Það verður hins vegar að segjast að vertíðin var hörkugóð. Þó svo að þetta sé sagt þá er ekki hægt að kvarta undan aflabrögðum í þessum síðasta túr. Við byrjuðum að veiða í Háfadýpinu en héldum síðan vestur á Selvogsbankann og við vorum einungis tvo daga að veiðum. Uppistaða aflans var þorskur og ýsa. Eins og áður er ýsan að valda vandræðum. Það er ýsa allsstaðar og alltof mikið af henni miðað við útgefinn kvóta,“ segir Birgir Þór í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Ýsualbínóinn um borð í Bergey. Ljósmynd: Ragnar Waage Pálmason

Skipstjóri á Bergey í veiðiferðinni var Ragnar Waage Pálmason. Hann segir að lögð hafi verið áhersla á að fiska karfa í túrnum og það hafi gengið sæmilega. „Við vorum að eltast við karfa á milli Gjáa, sunnan við Surtinn og síðan á Sneiðinni. Við veiddum síðan þorsk, ýsu og ufsa í Háfadýpinu og á Pétursey. Þó vertíðinni sé augljóslega að ljúka gekk þetta nokkuð vel. Á Péturseynni fengum við ýsualbínóa eða nánast hvíta ýsu og ég hef ekki séð slíkan fisk áður þó þeir fáist af og til,“ segir Ragnar.

Bæði skipin munu halda til veiða á ný á morgun.

Deila: