Einn skötuselur fyrir norðan!

Deila:

Síðustu sjö ár hefur magn skötusels mælst minna en árin 2003-2015 og mælingin í ár er sú lægsta frá aldamótum. Allir árgangar skötusels frá 2008 hafa mælst slakir í samanburði við árgangana frá 1998-2007 og fyrsta mæling á árganginum frá 2021 (nú 15-30 cm) bendir til að hann sé lítill.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hafró um stofnmælingar botnfiska.

Mikil breyting hefur orðið á útbreiðslu skötusels frá því stofninn var í hámarki og í stofnmælingunni í ár fékkst aðeins einn skötuselur á svæðinu frá Látrabjargi norður og austur um að sunnanverðum Austfjörðum. Útbreiðslan er því bundin við sunnanvert landið líkt og fyrir aldamót og magnið nálgast það að verða svipað og þá.

Dreifing skötusels við landið

Afli af skötusel hefur fallið hratt síðan fiskveiðiárið 2010/2011. Það ár varð aflinn 3.376 tonn  og 3,006 tonn fiskveiðiárið þar á eftir. Síðan hefur aflinn hreinlega hrunið og á síðasta fiskveiðiári var landaður afli aðeins 392 tonn. Leyfilegur afli var 502 tonn, og því voru óveidd um 111 tonn við lok fiskveiðiársins. Leyfilegur heildarafli á þessu fiskveiðiári er 405 tonn eftir sérstakar úthlutanir og flutning aflaheimilda frá fyrra ári.

Aflinn nú er aðeins 138,5 tonn, þegar fjórir mánuðir eru eftir af fiskveiðiárinu. Það er því ljóst að kvótinn mun ekki nást. Skötuselurinn er fyrst og fremst meðafli við aðrar veiðar. Á undanförnum árum hefur mest af skötuselnum komið sem meðafli við humarveiðar. Nú eru veiðar á humri bannaðar vegna hruns stofnsins og dregur það verulega úr skötuselsafla,

Deila: