Framherji í Færeyjum lætur smíða nýtt uppsjávarskip
Útgerðarfélagið Framherji í Færeyjum hefur undirritað samning um smíði nýs uppsjávarskips við skipasmíðastöðina Karstesens Skibsværft í Skagen í Danmörku. Skipið mun verða svipað og Finnur Fríði, sem Varðin í Götu er að láta byggjar fyrir sig á sömu skipasmíðastöð. Samherji á um fjórðung í Framherja og voru íslensku skipin Vilhelm Þorsteinsson EA og Börkur NK smíðuð hjá Karstesens.
Nýja skipið verður um 90 metrar að lengd 17-18 metrar breidd og mun geta borið um 3.500 tonn. Það er því mjög svipað fyrrnefndu íslensku skipunum. Skipið munn kosta um 5,5 milljarða íslenskra króna.
Hvort það verða Fagraberg eða Högaberg sem víkja fyrir nýja skipinu liggur ekki fyrir, en Högaberg er líklegra til að hverfa úr rekstri 2024, þegar nýja skipið kemur þar sem Högaberg er með frekar litla burðargetu og vélarafl, þegar kemur að veiðum á kolmunna.
Skrokkur skipsins verður smíðaður í skipasmíðastöð Karstesens í Póllandi og gert er ráð fyrir að komið verði með skrokkinn til Danmerkur í nóvember á næsta ári, þar sem smíðinni verður lokið.