Löngukvótinn kláraður

Deila:

Löngukvótinn er nú uppveiddur. Leyfilegur heildarafli er 3.062 tonn, en aflinn orðinn 3.179 tonn. Útgefinn kvóti var 2.670 tonn, sérstakar úthlutanir 139 tonn og 253 tonn voru flutt frá fyrra ári yfir á þetta.

Þetta er minnsti lönguafli frá því 2010. Á síðasta fiskveiðiári var aflinn 4.827 tonn, sem var um 765 tonnum umfram leyfilegan afla. Fiskveiðiárið 2019/2020 varð aflinn 6.599 tonn, á árunum 2013 til 2015 var aflinn yfir 11.000 tonn. Auk Íslendingar hafa Færeyingar og Norðmenn takmarkaðan löngukvóta við Ísland. Afli þeirra hefur lengst af verið ríflega 1.100 tonn á ári en var í hitteðfyrra 462 tonn.

Fimm bátar hafa fiskað meira en 100 tonn. Það eru Sighvatur GK með 220, Páll Jónsson GK með 151 tonn, Fjölnir GK með 148 tonn, Tjaldur SH með 128 tonn og Örvar SH með 110 tonn.

„Vísitala löngu hækkaði á árunum 2003-2012 eftir að hafa verið í lágmarki áratuginn þar á undan. Frá árinu 2012 hefur vísitalan haldist há. Fjöldavísitala eftir lengd er nálægt meðaltali rannsóknatímans en fjöldi löngu stærri en 90 cm er þó yfir meðaltali. Að venju fékkst langa fyrir sunnan og vestan land, frá suðausturmiðum að Kögurgrunni norðan Vestfjarða,“ segir í skýrslu Hafró um stofnmælingar á botnfiski.

Deila: