Burðarás landsbyggðarinnar
„Áhrif sjávarútvegs á íslenskt samfélag eru ekki öllum augljós. Sjávarútvegur er mun umfangsmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og því eru áhrifin sýnilegri íbúum hinna dreifðari byggða. Sjávarútvegur er í raun ein af fáum atvinnugreinum sem er umfangsmeiri á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu. Um 79% af atvinnutekjum í veiðum og vinnslu koma í hlut einstaklinga sem búa á landsbyggðinni. Það hlutfall hefur verið óbreytt undanfarinn áratug. Hlutfallið í fiskvinnslu er 83% en í fiskveiðum er það 77%. Lægra hlutfall í fiskveiðum má rekja til þess að sjómenn eru síður bundnir við að búa nálægt útgerðarstað. Miklar fjárfestingar í sjávarútvegi á undanförnum árum, eins og nánar er fjallað um á Radarnum, hafa treyst stöðu sjávarútvegsfyrirtækja og samfélaga víða um um land.“ Þetta kemur fram í frétt frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar er fjallað nánar um þessa staðreynd.
Víða um land
Byggðastofnun birti í árslok 2021 mælaborð þar sem sjá má atvinnutekjur eftir atvinnugreinum og svæðum á tímabilinu 2012-2020. Þetta eru mikilvægar upplýsingar enda sýna þær hvaða atvinnugreinar standa undir tekjum íbúa á einstaka landsvæði. Einnig má sjá þar hvernig tekjur atvinnugreina dreifast um landið en tekjur einstaklinga fylgja lögheimili þeirra en ekki launagreiðanda. Af þeim tölum sést að atvinnutekjur sem eiga uppruna sinn í sjávarútvegi dreifast víða um land en sérstaklega er áhugavert að skoða vægi veiða annars vegar og vinnslu hins vegar. Þar getur staðan verið nokkuð mismunandi.
Á myndinni fyrir neðan sést hvernig atvinnutekjur í veiðum og vinnslu og samanlagðar tekjur greinanna tveggja dreifðust um landið árið 2020. Þar má sjá að stærsti hluti atvinnutekna í fiskveiðum kemur í hlut einstaklinga sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Það má vafalaust rekja til þess að sjómenn eru síður bundnir af að búa í nálægð við vinnuveitanda eins og áður segir. Vægi vinnslunnar á höfuðborgarsvæðinu er talsvert minna en þó þriðja mesta á landinu. Stærsta hluta atvinnutekna í fiskvinnslu má rekja til Suðurnesja en þar er vægi veiða öllu minna. Suðurnes eru jafnframt eini landshlutinn þar sem atvinnutekjur af vinnslu eru umfram atvinnutekjur af veiðum. Eins er talsverður munur á vægi Vesturlands þegar kemur að veiðum og vinnslu þar sem vægi þess í atvinnutekjum af veiðum er talsvert hærra. Minni munur er á milli veiða og vinnslu í öðrum landshlutum. Þess má geta að tölur um þróunina frá einu ári til annars frá árinu 2012 til ársins 2020 er að finna á mælaborði Radarsins, sem nýlega hefur verið uppfært.
Ótal ástæður
Ótal ástæður geta legið að baki landfræðilegri dreifingu atvinnutekna einstaklinga af veiðum og vinnslu. Að sama skapi eru ótal ástæður fyrir því að atvinnutekjur af veiðum eða vinnslu í einum landshluta aukast á sama tíma og þær dragast saman í öðrum. Til að mynda eru bæði aflabrögð og afurðaverð mun sveiflukenndari í uppsjávarfiski en botnfiski og reksturinn þar af leiðandi áhættusamari. Loðnubrestur tvö ár í röð, árin 2019 og 2020, er ágætt dæmi um það. Þetta má telja stóra ástæðu þess að mun meiri samþjöppun hefur orðið á aflaheimildum í uppsjávarfiski en botnfiski. Nálægð við fiskimið skiptir meira máli í uppsjávariðnaði en nálægð við markaði. Þar skiptir mestu að koma afla ferskum úr sjó og í vinnslu á landi. Stærsti hluti uppsjávargeirans er á Austurlandi, Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Sveiflur í aflabrögðum og verði á uppsjávarfiski hafa því mikil áhrif á atvinnutekjur af sjávarútvegi á þessum svæðum.
Veiðar og vinnsla á botnfiski eru mun dreifðari um landið en á uppsjávarfiski. Þar hafa þó orðið talsverðar breytingar í vinnslu á undanförnum árum, þar sem aukin áhersla hefur verið á ferskfiskvinnslu. Það eitt og sér hefur talsverð áhrif á það hvernig atvinnutekjur í sjávarútvegi dreifast um landið. Sú áherslubreyting sem drifin er áfram af því að hámarka verðmæti úr takmörkuðum afla hefur leitt til þess að nálægð við markaði og neytendur skiptir orðið sífellt meira máli. Samgöngur og nálægð við flutningsleiðir gerir Suðvesturhornið að ákjósanlegum stað fyrir botnfiskvinnslu. Keflavíkurflugvöllur hefur gert Suðurnes að fýsilegum kosti fyrir vinnslu á botnfiski og skýrir að svæðið er stærst þegar kemur að atvinnutekjum af vinnslu.
Öflug sjávarútvegsfyrirtæki í hverjum landshluta
Af þessari umfjöllun má sjá að sjávarútvegur er dreifður víða um land og ótal ástæður geta legið að baki dreifingu atvinnutekna í greininni hverju sinni. Þegar litið er til landsins í heild er í raun engin atvinnugrein með jafnari dreifingu atvinnutekna um landið en sjávarútvegur. Öflug sjávarútvegsfyrirtæki eru í öllum landshlutum. Sjávarútvegur er því hornsteinn atvinnu- og mannlífs á fjölmörgum svæðum á landinu, þótt vægi hans sé vissulega mismunandi innan hvers svæðis. Nánar verður fjallað um þetta í fréttabréfi sem sent verður áskrifendum í dag.