Börkur og Vilhelm eru af nýrri kynslóð uppsjávarskipa
Nú er fengin reynsla af veiðum á nýjustu skipum íslenska uppsjávarflotans, systurskipunum Berki NK og Vilhelm Þorsteinssyni EA. Skipin komu ný til landsins á síðasta ári, Vilhelm í apríl og Börkur í júní. Þessi skip eru 89 metrar að lengd, 16,6 metrar að breidd og 4.140 brúttótonn að stærð. Þau eru smíðuð hjá danska skipasmíðafyrirtækinu Karstensens og eru búin öllum nýjustu tækjum sem völ er á. Klefar eru fyrir 15 manns auk sjúkraklefa. Þá er um borð rúmgóður borðsalur, tvær setustofur, líkamsræktaraðstaða og gufubað. Í skipunum eru þrettán RSW-tankar sem gera þeim kleift að koma með vel yfir 3.000 tonn af kældum afla að landi. Tvær aðalvélar eru í skipunum og er hvor þeirra 4.830 hestöfl. Þá eru þau einnig búin 1.100 hestafla ljósavél. Fjallað er um skipin á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Þessi nýjustu skip uppsjávarflotans hafa vakið mikla athygli og er talað um að þau séu af nýrri skipakynslóð. Ekki svo að skilja að þau séu einu glæsilegu skipin í uppsjávarflotanum. Glæsilegu skipin eru allmörg og nægir að nefna Beiti NK sem dæmi. Til að fá upplýsingar um hvernig þessi nýju skip hafa reynst hafði heimasíðan samband við skipstjórana. Þeir voru allir sammála um ágæti skipanna og töluðu um að þau mörkuðu framfaraskref. Þá lögðu þeir áherslu á hagkvæmni þeirra, góða vinnuaðstöðu og frábæran aðbúnað áhafna.
Hjörvar Hjálmarsson og Hálfdan Hálfdanarson, skipstjórar á Berki, sögðu að skipið hefði uppfyllt allar væntingar. „Það er ótrúlaga gott að vinna á þessu skipi og það fer vel bæði um áhöfn og afla. Það svínvirkar allt um borð. Þá eru þetta sennilega grænustu skip flotans en mikil áhersla var lögð á orkusparnað við hönnun þeirra. Skipin toga afar vel og það er einnig gott að stunda nótaveiði á þeim. Venjulega er siglt einungis á annarri vélinni og felst mikill orkusparnaður í því. Eins eru í skipinu tvær stórar kælipressur og tvær litlar. Stóru pressurnar eru einungis notaðar í stuttan tíma hverju sinni til að kæla en síðan viðhalda smærri pressurnar kuldanum. Þetta felur einnig í sér mikinn orkusparnað. Þetta skip eru einstaklega vel heppnuð,“ segir Hjörvar.
Hálfdan leggur sérstaka áherslu á góða vinnuaðstöðu og aðbúnað um borð og rétt eins og Hjörvar bendir hann á mikilvægi orkusparnaðar. „Þessi skip eru ótrúlega öflug. Þegar við siglum af miðunum með fullfermi þá keyrum við á annarri vélinni. Hún er einungis að nota 550 – 600 lítra af olíu á klukkustund og skipið er að fara einar 13 mílur. Þetta er ótrúlegt. Þessu til viðbótar má síðan nefna að þegar landað er til manneldisvinnslu í Neskaupstað eru skipin landtengd og þá er slökkt á vélum og nýtt raforka úr landi. Þá verður að nefna stefnið á skipinu. Sumum þykir það ekki sérlega fallegt en það gerir það að verkum í mótvindi að skipið líður í gegnum öldurnar í stað þess að höggva. Í þessu felst mikill og ánægjulegur munur. Eins ber að nefna að tvær aðalvélar í skipi eru öryggisatriði,“ segir Hálfdan.
Skipstjórarnir á Vilhelm Þorsteinssyni, þeir Guðmundur Þ. Jónsson og Birkir Hreinsson, benda í reynd á sömu þætti og þeir Hjörvar og Hálfdan. Guðmundur leggur mikla áherslu á aukna hagkvæmni og minni olíunotkun ásamt því hve öll aðstaða áhafnar er til mikillar fyrirmyndar. „Þetta eru stórkostleg skip í alla staði og það blasir við að með smíði þeirra hafa verið stigin framfaraskref. Tæknin er alls staðar nýtt og allt nettengt um borð. Við getum talað í snjallsíma hvar sem er og hagnýtt okkur öll þau þægindi sem skipið bíður upp á. Þá vantar skipin ekki getuna til að fiska,“ segir Guðmundur.
Birkir tekur undir með Guðmundi og segir að mikil ánægja ríki með skipið. „Þessi skip eru hreint frábær og menn eru alsælir með þau. Ég heyri ekki betur. Þetta eru listaskip í alla staði og menn eru nánast orðlausir yfir hve vel hefur gengið að fiska á þau bæði með flotvörpu og nót. Oft er töluvert bras í upphafi með ný skip en það var ekki um slíkt að ræða varðandi þessi. Ég get ekki annað sagt en að í mínum huga er nýi Vilhelm ein allsherjar draumahöll,“ segir Birkir.
Nýlegar fréttir herma að Skinney – Þinganes á Hornafirði hafi samið við Karstensens skipasmíðastöðina um smíði á uppsjávarskipi. Um er að ræða heldur minna skip en Börkur og Vilhelm en það verður með sama lagi og svipuðum búnaði. Áætlað er að skipið komi til landsins vorið 2024.
Systurskipin Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson EA á loðnumiðunum. Ljósm. Helgi Freyr Ólason