Byrjaði 8-10 ára að skera af þorskanetum og fella

Deila:

Maður vikunnar að þessu sinni er fæddur á Skagaströnd, býr á Blönduósi og starfar á Sauðárkróki. Hann lenti í sjávarháska á Húnaflóa, þegar neyðarlensidælunni hafði verið stolið úr bátnum stór gat skilið eftir í dekkinu.

Nafn:

Jón Örn Stefánsson.

Hvaðan ertu?

Fæddur og uppalinn á Skagaströnd.

Fjölskylduhagir?

Bý ásamt eiginkonu minni Þórdísi Erlu Björnsdóttur og þrem sonum þeim Birni Ívari, Stefáni Frey og Guðjóni Óla á Blönduósi.

Hvar starfar þú núna?

Gæða & öryggisstjóri Dögunar rækjuvinnslu á Sauðárkróki.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Það var um 8-10 ára aldur, hóf störf við fjölskylduútgerðina við hin ýmsustu tilfallandi störf ss. skera af þorskanetum, fella og margt fleira.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Stöðug þróun og nýjungar gera starfið skemmtilegt, fjölbreytni og umfram allt frábær félagsskapur.

En það erfiðasta?

Það getur öll vinna verið erfið, en þegar öllu er á botninn hvolft eru þetta verkefni sem þarf að leysa. Auðvitað eru sí breytilegar og auknar kröfur, en það er það sama þar, þetta þarf að leysa.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Mér dettur í hug þegar ég fór með Ásgeiri vini mínum Blöndal, sjóleiðina frá Hafnarfirði til Skagastrandar á litlum eikarbát. Báturinn hafði verið nýskoðaður, og með nýtt haffæri og skoðaður athugasemdalaust.

Eftir skoðun, skutumst við upp í búð og versluðum kostinn áður en við sigldum af stað.

Þegar við komum inn á Húnaflóa, lentum við í einhverjum kalda og það varð aðeins ágjöf en ekkert til að tala um.

Eftir stutta stund var hins vegar lestin orðin kjaftfull af sjó og vélarrúmið komið langleiðin með að fyllast líka, rafmagnið farið og neyðar-handdælan einhversstaðar í Hafnarfirði.

Orsökin á þessu var semsagt að á meðan við fórum upp í búð að versla kostinn, hafði einhver kappinn stolið neyðarlensidælunni á meðan og eftir var skilið 4 tommu gat í dekkinu þar sem sjórinn fossaði náttúrulega inn, ofaní lest og aftur í vél.

Við komumst í land, sem betur fer en við vonum að dælan hafi reynst vel hjá þessum meistara sem stal henni.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Úff, þeir eru margir og auðvitað get ég ekki svarað þessu án þess að nefna til sögunnar Árna Sig og strákana á konungi Atlantshafsins, Arnari HU-1, allt það frábæra starfsfólk sem ég vann með í landvinnslu FISK Seafood og náttúrulega samstarfsfólk mitt í dag. Pabbi er ofboðslega eftirminnilegur, það eru margir verri en hann.
Svo kemur upp í huga mér Arnar Freyr Jónsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Fiskey, seiðeldisstöðvar sem var rekin á Hjalteyri við Eyjafjörð. Þar vann ég sumarlangt í starfsnámi, eftir að hafa stundað nám við fiskeldisfræði í Háskólanum á Hólum.
Arnar er vel að manni, kappsamur og með örlitla kraftadellu. Þegar hann komst að því að ég var að æfa júdó með KA á Akureyri varð hann algjörlega friðlaus að takast á við mig, og auðvitað lét ég það eftir honum.

Það segja mér kunnugir að það sé ennþá gat á veggnum í kaffistofunni eftir að hann fór þar í gegn.

Hver eru áhugamál þín?

Fjölskyldan, svo hef ég gaman af ferðalögum, veiði, öllu sem tengist bátum auk þess að hafa rosalega gaman af því að fylgjast með boltaíþróttum.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Ég er voðalega hrifinn af folaldakjöti, rækjuréttum og lambakjöti. En það slær ekkert hamborgarhrygginn hennar Þórdísar minnar út.

Hvert færir þú í draumfríið?

Einhverntíman hefði ég sagt Rússland, en ætli það sé ekki í sólina á „Tene“ með alla fjölskylduna.

Deila: