Marel og lax-Inn í samstarf

Deila:

Marel og Lax-Inn nýsköpunar og fræðslumiðstöð lagareldis, hafa undirritað samstarfssamning sem miðar að því að auka fræðslu, þekkingu, og styðja við að gera tækifærin sem byggja á tækniþróun og nýsköpun í vinnslu eldisafurða sýnileg. Hugmyndafræði fræðslunnar og stuðningur við nýsköpunina byggir á að kynna heildarferli aðfangakeðjunnar frá „hrogni til fisk á disk“.

Vaxandi fiskeldi

Samkvæmt skýrslu FAO og OECD um framtíðarsýn fiskneyslu til 2030 er gert ráð fyrir því að vegna mannfjölgunar þurfi að mæta um 20 milljón tonna eftirspurn eftir fiskafurðum með auknu eldi. Ekki gert ráð fyrir aukningu úr hefðbundnum veiðum sem hefur næstum staðið í stað í þrjá áratugi á heimsvísu. Það eru þegar 6 ár síðan heimsframleiðslan af eldisafurðum tóku fram úr hefðbundnum veiðum fiskafurða til manneldis.

Aukning laxfiskaeldis á Íslandi

Mikil aukning hefur orðið á síðustu árum í laxfiskaeldi á Íslandi sem síðustu ár hefur verið leidd af hröðum vexti laxeldis í sjó og sú þróun hvergi í heiminum verið hlutfallslega jafn mikil og hér á landi.

Ísland er þegar leiðandi á heimsvísu í eldi á bleikju sem og landeldi á Atlantshafslaxi og landeldisfyrirtækin hér á landi gera ráð fyrir að ná svipuðum vexti og sjóeldið og vera komin í um 100 þúsund tonn á næstu 3-5 árum.

Marel leiðandi í tækjaframleiðslu fyrir eldisiðnaðinn

Marel er með einstaka stöðu á heimsvísu í framleiðslu tækjabúnaðar til fullvinnslu eldisafurða og hefur með kaupum á tækja- og fóðurframleiðandum Wenger líka styrkt stöðu sína á hratt vaxandi eldisafurða framleiðslu á heimsvísu.

Lax-Inn nýsköpunar og fræðslumiðstöð lagareldis

Fyrsta nýsköpunar- og fræðslumiðstöð lagareldis hér á landi, Lax-Inn, var stofnuð á síðasta ári og hefur verið með sýningar- og fræðslumiðlun í aðstöðu sinni við höfnina í Reykjavík. Starfsemin byggir á fræðslu og stuðning við nýsköpun á sviði fisk-, skel- og þörungaræktar.

Samstarf Marel og Lax-Inn

Marel er fyrsti tækjaframleiðandinn sem undirritar samstarfssamning af þessu tagi við Lax-Inn fræðslumiðstöð. „Öflugur mannauður er ein af undirstöðum sterkrar stöðu Marel á heimsvísu í framleiðslu tækjabúnaðar fyrir fiskvinnslu. Frekari fræðsla og þekking starfsfólks okkar á eldisstarfseminni er okkur mikilvæg og því fögnum við þessu samstarfi við Lax-Inn, nýsköpunar- og fræðslumiðstöð, og njótum góðs af fræðslumiðlun og samstarfi Lax-Inn við önnur fyrirtæki og stofnanir á þessu sviði“ segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel

„Marel er ekki bara stærsta fyrirtæki á Íslandi heldur einnig aðili sem er leiðandi á heimsvísu í nýsköpun og framleiðslu tækja- og tæknilausna á sviði framleiðslu eldisafurða. Nýverið bætti Marel við nýrri stoð í starfsemi sína með kaupum á Wenger tækja- og fóðurframleiðanda sem einnig er spennandi fyrir okkur að kynna í fræðslumiðstöð okkar. Samstarfið við Marel mun því fyrir okkur styðja við fræðslustarfsemi okkar sem og þá nýsköpun fiskeldis sem hefur á undanförnum árum verið grunnur að einni mest vaxandi atvinnugrein á Íslandi.“ Segir Sigurður Pétursson stofnandi Lax-Inn, fræðslu og nýsköpunarmiðstöðvar lagareldis.

Meðfylgjandi mynd var tekin við undirskrift samstarfssamnings Marel og Lax-Inn sem Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel og Sigurður Pétursson, stofnandi Lax-Inn skrifuðu undir.
Deila: