Byrjaði sex ára í launuðu starfi

Deila:

Það eru líklega fáir sem byrja í launuðu starfi sex ára, en það gerði maður vikunnr að þessu sinni. Hann hefur þrætt störfin upp á við, lyftaramaður, sjómaður, Marelmaður og sölumaður. Hann er frá Ólafsvík og langar í siglingu um Eyjahafið.

Nafn:

Valdimar Gunnar Sigurðsson.

Hvaðan ertu?

Ólafsvík.

Fjölskylduhagir?

Giftur Rannveigu Hildi Kristinsdóttur og eigum við tvö börn, Sigurð Steinar og Ölmu Dís.

Hvar starfar þú núna?

Ég starfa sem sölustjóri hjá Bacco Sea Products, sem sérhæfir sig í sölu á fiskafurðum.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Fyrsta launaða starfið sem ég vann við í sjávarútvegi, var að hringa netateina þegar ég var 6 ára og fékk ég þá 11 kr fyrir hvern tein.  Fór síðan að vinna í fiskvinnslu og var orðin lyftaramaður 14 ára í Bakka hf. án þess að vera með aldur til að taka lyftarapróf, svo tók sjómennskan fljótlega við eftir það.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það sem mér hefur þótt hvað skemmtilegast við að starfa í sjávarútvegi var að taka þátt í því með störfum mínum í Marel og fiskframleiðendum að innleiða fyrstu vatnskurðarvélarnar sem notaðar voru í heiminum og að vinna með öllu því frábæra fólki sem lét hlutina verða að veruleika.

En það erfiðasta?

Maður er nú tilbúinn að leggja mikið á sig fyrir gott vesen og oftast tengist það veðrinu.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það sem ég mun aldrei gleyma er það þegar við feðgar rerum á Sigurvík SH-117 frá Ólafsvík og björguðum skipverjum á Pétri Jóhannessyni SH-177 þann 23 febrúar 1995. En báturinn sökk á örfáum mínútum síðla dags og við náðum til skipverjanna rétt áður en báturinn hvarf ofan í hafið og myrkur skall á.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ég hef átt marga góða vinnufélaga í gegnum tíðina og get ég ekki gert upp á milli þeirra, en listinn er langur.


Hver eru áhugamál þín?

Ég á mörg áhugamál en þau helstu eru fjallganga, skotveiði, fluguveiði og golf.


Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Leturhumar og hreindýr.


Hvert færir þú í draumfríið?

Ég færi sennilega aftur í eyjasiglingu um Adríahafið. 

Deila: