Mikill afli á strandveiðum

Deila:

Afli strandveiðibáta eftir 14 veiðidaga í sumar er orðinn 2.674 tonn. Þar af er þorskur2.442 tonn. Heildaraflinn er sá mesti eftir 14 veiðidaga, en í fyrra var aflinn í sömu stöðu 2.593 tonn. Nú hafa 576 bátar landað afla, en í fyrra voru bátarnir á sama tíma 542.

Afli á bát er að meðaltali orðinn 4,6 tonn, en var 4,8 tonn í fyrra. Aflinn er langmestur á svæði A, enda bátarnir flestir þar. Aflinn nú er 1.610 tonn, sem er mesti afli eftir sama tíma. Í fyrra var aflinn 1.477 tonn. 287 bátar hafa nú landað afla í 2.153 löndunum.

Á svæði B, hafa 112 bátar landað 423 tonnum í 665 löndunum. Það er litlu minna en á sama tíma í fyrra, en meira en þrjú síðustu árin þar á undan. Á svæði C hafa 79 bátar landað 238 tonnum í 392 löndunum. Það er heldur minna en síðustu þrjú ár. Á svæði D hafa 98 bátar landað 403 tonnum í 624 róðrum. Það er svipað og í fyrra, en mun minna en næstu tvö ár þar á undan.

Deila: