185,1 milljón úthlutað úr Fiskeldissjóði

Deila:

Stjórn Fiskeldisjóðs hefur úthlutað öðru sinni styrkjum til eflingar innviða og atvinnulífs í sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað. Að þessu sinni var úthlutað styrkjum til níu verkefna í sex sveitarfélögum, samtals 185,1 milljónir króna. Úthlutun á fyrra ári nam 105 milljónum króna. 

Eftirfarandi níu verkefni frá sex sveitarfélögum hlutu styrk:

  • Vatnsveita í Bolungarvík, bygging miðlunartanks, Bolungarvíkurkaupstaður, 33,4 milljónir kr.
  • Endurnýjun vatnslagna í Staðardal, Ísafjarðarbær (framhaldsverkefni), 33,4 milljónir kr.
  • Nemendagarðar Háskólaseturs, frágangur lóðar, Ísafjarðarbær, 16 milljónir kr.
  • Fráveituframkvæmdir í Djúpavogi (framhaldsverkefni), Múlaþing, 32,4 milljónir kr.
  • Smitvarnir í Súðavíkurhöfn, Súðavíkurhreppur, 4,1 milljón kr.
  • Uppbygging á hafnarsvæði, Tálknafjarðarhreppur, 28,8 milljónir kr.
  • Áhaldahús og slökkvistöð á Bíldudal, Vesturbyggð, 22,6 milljónir kr.
  • Vatnsöryggi í Vesturbyggð, (framhaldsverkefni), Vesturbyggð, 4,1 milljón kr.
  • Öruggar gönguleiðir, gerð gangstétta, Patreksfirði, Vesturbyggð, 10,3 milljónir kr.

Þrjú af ofangreindum verkefnum fengu styrk við úthlutun 2021.

Samþykktar umsóknir námu samtals um 299,5 milljónum króna en þar sem ráðstöfunarfé sjóðsins er lægra en sú fjárhæð voru styrkfjárhæðir skertar hlutfallslega í samræmi við forgangsröðun stjórnar.

Stjórnin metur það svo að verkefnin sem hljóta styrk að þessu sinni falli öll vel að áherslum sjóðsins og séu til þess fallin að styrkja innviði sveitarfélaga og atvinnulíf á þeim svæðum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað.

Frá stofnun sjóðsins 2021 hafa tæplega 300 milljónir króna runnið til fjölbreyttra og krefjandi verkefna í viðkomandi sveitarfélögum til að mæta vaxandi kröfum íbúa og atvinnulífs í takt við aukin umsvif í sjókvíaeldi. Þær áherslur sem stjórn sjóðsins vinnur eftir við úthlutun eru eftirfarandi:

1. Styrkari samfélagsgerð (menntun, menning, íbúaþróun);

2. Uppbygging innviða (atvinnulíf, þjónusta);

3. Loftslagsmarkmið og umhverfisvernd (fráveita, orkuskipti, vatnsveita);

4. Tenging við sjókvíaeldi (hafnir, aðstaða í landi); 5. Nýsköpun hvers kyns,tengd ofangreindum þáttum.

Deila: