Komnar yfir 200.000 tonn af loðnu og kolmunna

Deila:

Það sem af er ári hafa fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði tekið á móti rúmlega 200.000 tonnum af hráefni. Um er að ræða 135.000 tonn af loðnu og 65.000 tonn af kolmunna. Verksmiðjan í Neskaupstað hefur tekið á móti 108.000 tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði 93.000 tonnum, samkvæmt frétt frá Síldarvinnslunni.

Það er langt síðan jafn mikill afli hefur borist til verksmiðja Síldarvinnslunnar á fyrstu fimm mánuðum ársins en það gerðist síðast árið 2015. Þá voru verksmiðjur fyrirtækisins reyndar þrjár því Helguvíkurverksmiðjan var enn í notkun.

Verksmiðjustjórarnir, Hafþór Eiríksson í Neskaupstað og Eggert Ólafur Einarsson á Seyðisfirði, segja að vinnslan hafi gengið einstaklega vel á árinu að undanskildum síðustu dögum kolmunnavertíðar en þá var fiskurinn orðinn smærri en áður og fullur af átu. Skipin hafa komið með aflann vel kældan að landi og eykur það gæði hráefnisins til mikilla muna og auðveldar vinnsluna. Verksmiðjustjórarnir leggja áherslu á að það sé ekki síst góðum starfsmönnum að þakka hve vel hefur gengið.

Mikil eftirspurn er bæði eftir mjöli og lýsi og verð há. Vel hefur gengið að losa afurðirnar og hafa þær verið fluttar úr landi jafnt og þétt. Megnið af afurðunum er selt til laxeldisfyrirtækja og eru Noregur og Skotland helstu viðskiptalöndin.
Bjarni Ólafsson AK að landa kolmunna. Ljósm. Smári Geirsson

Deila: