Karfinn svo gott sem friðaður

Deila:

,,Þetta er búin að vera ágæt veiðiferð hjá okkur. Það vantar tíu tonn upp á fullfermi og ef við náum þeim ekki í dag þá verðum við landi á morgun,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE, í samtali á heimasíðu Brims. Hann var þá með skipið að veiðum SV af landinu.

Að sögn Ella hefur veiðiferðin verið skrykkjótt með tilliti til afla, eins og gerist, en mikill tími hefur farið í siglingar milli svæða til að ná í einstakar tegundir.

,,Það hefur gengið erfiðlega að ná í ufsa enda eru allir að reyna við ufsann þessa dagana. Við byrjuðum veiðar fyrir sunnan en heyrðum þá um góða ufsaveiði norður á Hala. Við fórum því þangað en þegar við komum var ufsaveiðin dottin niður. Við veiddum því þorskinn þar og drifum okkur svo aftur suður eftir um sólarhring á Halanum,” segir Elli.

Að sögn þessa margreynda skipstjóra er orðið erfitt með að sneiða hjá því sem ekki má veiða.

,,Karfinn er svo gott sem friðaður því það hættir enginn sér inn á þau svæði sem vitað er að karfi er á. Það fer því enginn á Fjöllin til að leita að ufsa. Hið sama á við um Skerjadjúp. Þangað fara bara frystitogarar sem veiða gulllax,” segir Elli en þess má geta að fullfermi hjá Viðey er um 190 tonn.

Deila: