Marel tilkynnir um framkvæmd endurkaupaáætlunar á Euronext Amsterdam

Deila:

Stjórn Marel hf. hefur tekið ákvörðun um að hefja endurkaupaáætlun þar sem keyptir verða allt að 1.000.000 eigin hlutir í félaginu á Euronext Amsterdam, eða sem samsvarar 0,13% af útgefnu hlutafé, fyrir hámarks heildarkaupvirði allt að 5.590.000 evrum. Áætlunin kemur til viðbótar við endurkaupaáætlun á Nasdaq Iceland sem tók gildi í dag 1. júní þar sem keyptir verða allt að 4.000.000 eigin hlutir. Tilgangur endurkaupanna er að standa við skuldbindingar sem leiða af kaupréttarsamningum við starfsmenn félagsins. Marel á nú 14.664.411 eigin hluti, eða sem nemur 1,9% af útgefnu hlutafé í félaginu.

ABN AMRO Bank N.V. mun hafa umsjón með framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar á Euronext Amsterdam og taka allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum í félaginu og tímasetningu kaupa óháð félaginu og án áhrifa frá því. Framkvæmd áætlunarinnar verður í samræmi við lög, þ.m.t. lög nr. 2/1995 um hlutafélög, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 596/2014 um markaðssvik („MAR“) og framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 2016/1052 sbr. lög um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 6/2021.

Endurgjald fyrir keypta hluti skal ekki vera hærra en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði á Euronext Amsterdam hvort sem er hærra. Kaup hvers viðskiptadags samkvæmt endurkaupaáætluninni munu að hámarki nema 25% af meðaldagsveltu undangenginna 20 viðskiptadaga á Euronext Amsterdam. Viðskipti félagsins með eigin hluti á grundvelli endurkaupaáætlunarinnar verða tilkynnt eigi síðar en við lok sjöunda viðskiptadags eftir að viðskiptin fara fram. Endurkaupaáætlunin tekur gildi 2. júní og gildir til og með 2. september 2022 í síðasta lagi, en félaginu er heimilt að hætta við endurkaupin hvenær sem er.

Samkvæmt heimild aðalfundar félagsins í mars 2022, er félaginu heimilt að kaupa eigin hluti allt að 10% af hlutafé félagsins. Kaup á eigin hlutum skulu vera í samræmi við skilyrði 55. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Heimildin gildir til 16. september 2023.

Deila: